Pompeo átti fund með Kim

Mike Pompeo, framkvæmdastjóri CIA og verðandi utanríkisráðherra.
Mike Pompeo, framkvæmdastjóri CIA og verðandi utanríkisráðherra. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sendi framkvæmdastjóra bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), Mike Pompeo, til Norður-Kóreu á fund leiðtoga landsins, Kim Jong-un, nýverið. Tilgangur ferðarinnar var að undirbúa jarðveginn fyrir leiðtogafund Kim og Trump í maí.

Þetta herma tveir heimildarmenn New York Times sem fengu upplýsingar um leyniferðina. Greint var frá þessu í gær. Trump ýjaði að því síðdegis í gær að fundurinn hafi verið haldinn þegar hann greindi frá því að Bandaríkin ættu í beinum viðræðum við Norður-Kóreu og þær viðræður væru á afar háttsettu stigi og að Hvíta húsið væri að skoða fimm staði sem mögulega staðsetningu fyrir leiðtogafundinn. 

Pompeo, sem verður næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur verið í samskiptum við Norður-Kóreu í gegnum boðleiðir leyniþjónustu ríkjanna tveggja. Eins hefur hann verið í nánum samskiptum við leyniþjónustu Suður-Kóreu, einkum framkvæmdastjóra hennar, Suh Hoon, sem talið er að hafi komið á fundi Kim og Trump.

Frétt New York Times frá því í gær

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert