Lækka verði laun leikara

Hollywood-leikkonan Salma Hayek segir að karlar í stétt leikara verði að sætta sig við lægri laun ef þeim sé alvara um jafnrétti kynjanna.

Þetta kom kom fram í máli Hayek á ráðstefnu í Cannes í dag þar sem fjallað var um jafnréttismál og hlut kvenna í kvikmyndum.

Hayek hefur verið leiðandi í umræðunni um #MeToo og Time's Up. Hún segir að það sé komið að körlum sem eru með hæstu launin að leggja sitt af mörkum. Ekki sé hægt að sakast endalaust við framleiðendurna. Leikararnir verði einnig að gera sitt til þess að brúa bilið. 

Ef leikarar eru með himinháar launakröfur þá er ekkert eftir fyrir leikkonurnar af fjárhagsáætlun kvikmyndarinnar. Til að mynda ef áætlun geri ráð fyrir 10 milljóna bandaríkjadala launakostnaði og karlleikarinn fær 9,7 milljónir dala þá er lítið eftir til skiptana. Ef ekkert verði að gert þá muni þetta ganga af kvikmyndum dauðum.

Konur eru áberandi á kvikmyndahátíðinni í Cannes og í gær voru þær Cate Blanchett, Kristen Stewart og Salma Hayek fremstar í flokki leikkvenna sem kröfðust jafnréttis í launamálum kynjanna í kvikmyndum. Alls tóku 82 konur, leikkonur, framleiðendur og leikstjórar, þátt í mótmælum á rauða dreglinum í gær.

Salma Hayek Pinault.
Salma Hayek Pinault. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert