#babywatch slær í gegn

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Samfélagsmiðlafár er hafið í Nýja-Sjálandi og víðar undir myllumerkinu #babywatch en landmenn bíða með öndina í hálsinum eftir fregnum af barnsfæðingu forsætisráðherra landsins, Jacinda Ardern. 

Ardern fór snemma á fimmtudagsmorgni (að nýsjálenskum tíma) á fæðingardeildina þar sem fæðingin var að hefjast en áætlað var að barnið fæddist 17. júní. Ardern, sem er 37 ára gömul, og maður hennar, Clarke Gayford, hafa ekki gefið upp kyn barnsins og bíða landsmenn spenntir eftir fregnum af fæðingu barnsins. 

Þetta er í annað skipti í sögunni sem þjóðarleiðtogi fæðir barn en Benazir Bhutto, þáverandi forsætisráðherra Pakistan, var sú fyrsta en hún eignaðist barn árið 1990. Ef barnið fæðist í dag vill svo skemmtilega til að þetta er fæðingardagur Bhutto en hún var skotin til bana 27. december 2007 aðeins 54 ára að aldri.

Jacinda Ardern og maður hennar Clarke Gayford.
Jacinda Ardern og maður hennar Clarke Gayford. AFP

Ardern tók við sem forsætisráherra Nýja-Sjálands í október. Winston Peters aðstoðarforsætisráðherra tekur við starfsskyldum hennar næstu sex vikurnar á meðan hún er í fæðingarorlofi.

Fjölmargir fjölmiðlamenn bíða eftir fregnum á sjúkrahúsinu í Auckland. Þeir hafa stillt upp myndavélum sínum og eru tilbúnir að segja fyrstu fréttir af barnsfæðingunni. #babywatch er sennilega vinsælasta myllumerkið þar í landi í dag.

Á Twitter og fleiri samfélagsmiðlum er hægt að sjá ýmislegt forvitnilegt varðandi nýburann. Til að mynda að ef barnið fæðist í dag þá eru vetrarsólstöður í Nýja-Sjálandi – sumarsólstöður hinum megin á hnettinum – og það þykir boða gott að fæðast á þeim degi. Lagalistar spretta fram með lögum eins og Hey Boy, Hey Girl með Chemical Brothers og The Final Countdown með Europe. 

Jacinda Ardern og Angela Merkel í Berlín í apríl.
Jacinda Ardern og Angela Merkel í Berlín í apríl. AFP

Margir fjölmiðlar hafa brugðið á það ráð til að stytta biðina að taka viðtöl við fólk í fjölskyldu Ardern eða sýna gömul viðtöl við forsætisráðherrann. Til að mynda ummæli Arderm um hversu fáránlegt það sé fyrir konur að þurfa að fá spurningar um hvort þær hyggist eignast börn í framtíðinni þegar þær mæta í starfsviðtal. 

En samkvæmt Guardian þykja stærstu fréttirnar þær að Ardern hefur verið að senda starfsfólki sínu skilaboð af fæðingardeildinni. Ekki sé vitað hvað komi þar fram annað en að þau tengist ekki fæðingunni á nokkurn hátt.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert