Björgunin gæti tekið mánuði

Taílensku drengirnir tólf og knattspyrnuþjálfari þeirra gætu þurft að dúsa í hellinum mánuðum saman nema þeir læri að kafa samkvæmt upplýsingum frá hernum. Tveir breskir kafarar fundu hópinn í gær en þá hafði hans verið saknað í níu daga.

Tekist hefur að koma mat og sjúkragögnum til drengjanna en þeir hafast við á klettasyllu ásamt þjálfara sínum djúpt inni í helli sem er umlukinn vatni. Ef þeir læra ekki köfun er óvíst um hvort hægt verður að koma þeim út úr hellinum fyrr en flóðin sjatna.

Samkvæmt upplýsingum frá hernum er verið að koma nokkurra mánaða skammti af mat til drengjanna auk þess sem reynt verður að kenna þeim köfun þar sem þeir eru marga kílómetra inni í flóknu kerfi Tham Luang-hellanna. 

„Hversu margir eruð þið? ... 13 ... frábært,“ kallar breskur kafari í myndskeiði sem hefur verið birt þegar kafararnir ná sambandi við drengina. Á myndskeiðinu sjást drengirnir í drulluskítugum fótboltatreyjum þar sem þeir reyna að verja augu sín fyrir sterkum ljóskösturum kafaranna.

Hópurinn var orðinn aðframkominn af hungri og var því vel þegið að fá sendar vistir inn í hellinn. Þar á meðal orkugel og verkjalyf. Áfram verður unnið að því að senda þeim mat og lyf sem eiga að duga þeim í að minnsta kosti fjóra mánuði. Eins verða þeir allir þrettán þjálfaðir í köfun, segir yfirmaður hersins, Anand Surawan.

„Við sögðum að þetta væri óleysanlegt verkefni þar sem það rigndi á hverjum degi en með staðfestu og búnaði okkar tókumst við á við náttúruöflin,“ segir ríkisstjórinn í Chiang Rai, Narongsak Osottanakorn, við fréttamenn í dag.

Breskir kafarar fundu drengina um klukkan 22 að staðartíma í gær en þeir höfðust við á klettasyllu í um 400 metra fjarlægð frá þeim stað þar sem talið var að þeir væru inni í hellinum. Í myndskeiðinu heyrist einn af drengjunum kalla: „Við erum svangir ... eigum við að koma út?“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Tekk skrifborð og tekk stóll
Tekk skrifborð og stóll. Lítur mjög vel út. St 119x59cm. verð kr 22.000 sa...
Trúlofunar- og giftingarhringar í úrvali
Auk gullhringa eigum við m.a. titaniumpör á fínu verði. Sérsmíði, framleiðsla og...
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...