Fimm hoppukastalar í jarðarförinni

Gestir í jarðarför Garretts eiga að hafa gaman.
Gestir í jarðarför Garretts eiga að hafa gaman. Ljósmynd/Árni Torfason

Hinn fimm ára gamli Garrett Matthias lést úr krabbameini í síðustu viku, en útför hans verður gerð í dag. Sjálfur hafði hann ýmislegt að segja um jarðarförina, minningarræðuna og dauðann sjálfan. Guardian greinir frá.

Garrett er meðhöfundur foreldra sinna í minningarræðunni, en ásamt því að telja upp þær kvalafullu meðferðir sem hann hefur þurft að ganga í gegnum er greint frá uppáhaldinu hans: að leika við systur sína, bláa kanínan hans og þungarokk. Meðal þess sem honum líkar ekki eru buxur og skítuga heimska krabbameinið.

Ætlar að verða górilla og búa í tré

Þegar foreldrar Garretts komust að því að krabbameinið myndi draga hann til dauða byrjuðu þau að ræða við hann um dauðann. Garrett sagðist ætla að verða górilla svo hann gæti kastað skít í pabba sinn. Foreldrar hans spurðu hann hvort hann vildi láta brenna eða jarða sig, og ekki stóð á svörum hjá Garrett: „Ég vil láta brenna mig (eins og þegar mamma Þórs dó) og gera mig að tré svo ég geti búið í því þegar ég verð górilla.“

„Jarðarfarir eru sorglegar,“ sagði Garrett þegar hann var spurður hvernig hann vildi hafa sína. „Ég vil hafa fimm hoppukastala (af því ég er fimm ára), Batman og krapís.“

Minningarræðunni lýkur svo með síðustu skilaboðum Matthiasar: „Sjáumst síðar, aular! – Hinn frábæri Garrett nærbuxur.“

Garrett fær óskir sínar uppfylltar í dag, en auk fimm hoppukastala og krapísvélar verða ýmsir leikir í jarðarförinni og flugeldasýning. Þá mun bogaskytta skjóta brennandi ör í lítinn bát með ösku Garretts í tjörn nágranna fjölskyldunnar.

Einkajarðarför fyrir Garrett fer fram síðar þegar foreldrar hans verða búnir að finna út úr því hvernig megi gera ösku hans að tré.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert