Taldi eitrið ilmvatn og úðaði á sig

Dawn Sturgess og Charles Rowley.
Dawn Sturgess og Charles Rowley. AFP

Maðurinn sem fann á víðavangi flösku sem innihélt eiturefnið novichok segir að um ilmvatnsflösku hafi verið að ræða og að hún hafi verið í að því er virtist dýrum kassa. Í frétt Guardian segir að kassinn hafi verið innsiglaður. Eitrið varð kærustu mannsins að bana. 

Charlie Rowley fann flöskuna í kassanum og gaf kærustu sinni, Dawn Sturgess. Hélt hann að um ilmvatn væri að ræða. 

Lögreglan rannsakar nú hvort að eitrið hafi verið skilið eftir á fleiri stöðum eftir árásina á Skripal-feðginin í mars, að því er CNN greinir frá. 

Rowley segir í samtali við ITV-fréttastofuna að Sturgess hafi orðið veik innan fimmtán mínútna eftir að hún úðaði efni flöskunnar á hendur sínar. Hún lést viku síðar á sjúkrahúsi í Salisbury á Englandi.

Rowley veiktist einnig en var útskrifaður af sjúkrahúsi 20. júlí, þremur vikum eftir að hafa komist í snertingu við eitrið. Hann segist hafa geymt flöskuna í kassanum á heimili sínu í nokkra daga áður en hann gaf kærustu sinni hana sem gjöf. Hann segir að kærastan hafi strax borið kennsl á vörumerkið á kassanum. Um dýrt merki hafi verið að ræða.

„Í höfði mínu er minning um það þegar hún úðaði því á úlnliðina og nuddaði þeim saman,“ segir hann í viðtalinu við ITV. Sjálfur segist Rowley hafa þefað af efni flöskunnar og fundist lyktin olíukennd og ekki líkjast ilmvatni. „Fimmtán mínútum síðar sagði Dawn að sér liði illa og væri með höfuðverk. Hún spurði hvort ég væri með einhverjar verkjatöflur. Henni sagðist líða undarlega og yrði að leggjast fyrir í baðkarinu. Ég fór inn á baðherbergi og kom þar að henni í baðkarinu, alklæddri, og ástand hennar mjög slæmt.“

Hann segist kenna sjálfum sér um hvernig fór en segir einnig að árásin hafi verið gerð af óábyrgu fólki sem hafi skilið eitrið eftir á víðavangi. „Þetta var svo óheppilegt, ég er mjög reiður,“ sagði Rowley.

Rowley býr í Amesbury, skammt frá Salisbury þar sem árásin á Skripal-feðginin var gerð. Sturgess bjó í skýli fyrir heimilislausa í Salisbury en hafði ætlað sér að flytja til Rowleys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert