Segja „Love Island“ á bak við lýtaaðgerðir

55% ungra Breta segja Love Island-raunveruleikaþáttinn ástæðuna fyrir aukinni spurn …
55% ungra Breta segja Love Island-raunveruleikaþáttinn ástæðuna fyrir aukinni spurn eftir lýtaaðgerðum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Meira en helmingur fólks á aldrinum 18-34 ára er á þeirri skoðun að raunveruleikaþættir og samfélagsmiðlar hafi neikvæð áhrif á líkamsmynd þeirra. Þetta kemur fram í nýrri könnun ComRes-markaðskönnunarfyrirtækisins.

Könnunin, sem BBC fjallar nánar um, gefur einnig til kynna að yngra fólk er líklegra til þess að fara í lýtaaðgerðir. Um 35% þátttakenda í aldurshópnum 18-34 ára sögðust vera opin fyrir því að fara í lýta- eða fegrunaraðgerðir. Það hlutfall lækkar þó niður í 20% þegar aðrir aldurshópar eru teknir með í reikninginn.

Þá sögðu 35% þátttakenda að raunveruleikaþættir á borð við „Love Island“ beri ábyrgð á aukinni spurn eftir lýtaaðgerðum. Það hlutfall hækkaði þó upp í 55% þegar yngsti aldurshópurinn, 18-34 ára, var skoðaður sérstaklega.

Könnunin bendir einnig til þess að fjórðungur fullorðinna Breta hafi farið, eða þekki einhvern sem hafi farið í lýtaaðgerðir.

Eftir því sem fram kemur í umfjöllun BBC um málið, en þar var rætt við tvær ungar breskar konur, velja margir að steypa sér í skuldir og taka lán fyrir lýtaaðgerðum. 

„Margir skuldsetja sig fyrir það. Þeir fá lán fyrir þessu og í stað þess að hugsa „í forgangi hjá mér er að fá mér gott húsnæði,“ vilja margir frekar ná góðri Instagram-mynd,“ sagði annar viðmælandi BBC, Montanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert