Skilgreining á hryðjuverkum of breið

Ni Aolain gagnrýnir Facebook í bréfi sínu til Zuckerberg.
Ni Aolain gagnrýnir Facebook í bréfi sínu til Zuckerberg. AFP

Skilgreining Facebook á því hvað felst í orðinu „hryðjuverk“ er of breið. Þetta getur leitt til ritskoðunar og til þess að fólki er meinaður aðgangur að þjónustu síðunnar, að sögn sérfræðings Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum.

Sérfræðingurinn, Fionnuala Ni Aolain, hefur skrifað bréf til Marks Zuckerbergs, forstjóra Facebook. Þar lýsir hún yfir áhyggjum sínum vegna aðferða fyrirtækisins við að hindra „hryðjuverkamenn“ í að nota síðuna, að því er segir í yfirlýsingunni.

Ni Aolain segir að skilgreining Facebook á hryðjuverkum leggi að jöfnu alla hópa sem nota ofbeldi á einn eða annan hátt til að ná fram markmiðum sínum.

Facebook meinar hryðjuverkamönnum að nota síðuna og beitir sérstökum aðferðum við að finna efni tengt þeim og fjarlægja það.

„Svona breið notkun á skilgreiningunni veldur sérstökum áhyggjum í ljósi þess að fjöldi ríkisstjórna reynir að stimpla mismunandi gerðir mótþróa og andstöðu, hvort sem þær eru friðsamlegar eða ofbeldisfullar, sem hryðjuverk,“ sagði Ni Aolain.  

Hún bætti við að skilgreiningin væri einnig á skjön við alþjóðleg mannréttindalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert