„Siðblinda forsetans rót vandans“

Donald Trump segir að væntanleg bók Bobs Woodwards byggist á ...
Donald Trump segir að væntanleg bók Bobs Woodwards byggist á „upplognum sögum“ sem sagðar hafi verið til að blekkja almenning. AFP

Aðstoðarmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu hafa hafið leit að ónefndum höfundi greinar þar sem hann segist vera á meðal embættismanna sem reyni að hafa hemil á „verstu hneigðum“ forsetans til að verja hagsmuni landsins. Greinin virðist staðfesta fullyrðingar í væntanlegri bók eftir Bob Woodward, einn virtasta blaðamann Bandaríkjanna, sem lýsir því hvernig embættismenn í Hvíta húsinu og í ráðuneytum stjórnarinnar hafa reynt að koma í veg fyrir að forsetinn taki ákvarðanir sem geti skaðað efnahag Bandaríkjanna og grafið undan þjóðaröryggi.

Greinin var birt í The New York Times í fyrradag og blaðið sagði aðeins að höfundurinn væri hátt settur embættismaður ríkisstjórnar Trumps. Forsetinn sagði að birting greinarinnar væri skammarleg og krafðist þess að blaðið birti nafn höfundarins. Hann dró í efa að greinin kæmi í raun og veru frá hátt settum embættismanni, sagði nafnleysið til marks um hugleysi og varpaði fram þeirri spurningu hvort höfundurinn hefði gerst sekur um landráð.

„Ég tek þátt í andspyrnu“

Fyrirsögn greinarinnar er „Ég tek þátt í andspyrnunni í stjórn Trumps“. Hann segir forsetann standa frammi fyrir prófraun sem enginn forvera hans í nútímasögu Bandaríkjanna hafi tekist á við. Hann skírskotar til rannsóknar sérstaks saksóknara á afskiptum Rússa af kosningunum 2016, klofnings þjóðarinnar í heiftarlegum ágreiningi um Trump og möguleikans á því að flokkur hans missi meirihlutann í fulltrúadeild þingsins. Hann segir þó fleira koma til því að forsetinn standi frammi fyrir því að „margir hátt settir embættismenn í stjórn hans sjálfs vinna af kostgæfni að því innan hennar að hindra hluta af stefnu hans og hafa hemil á verstu hneigðum hans. Ég ætti að vita það. Ég er einn þeirra“.

Hvíta húsið í Washington.
Hvíta húsið í Washington. AFP

Höfundurinn tekur fram að embættismennirnir tilheyri ekki „andspyrnu“ vinstrimanna. „Við viljum að ríkisstjórnin nái árangri og teljum að mörg stefnumál hennar hafi þegar gert Bandaríkin öruggari og betur stæð. Við teljum hins vegar að við höfum fyrst og fremst skyldu að gegna gagnvart landinu og forsetinn heldur áfram að starfa með hætti sem skaðar velferð lýðveldisins. Þess vegna hafa margir okkar, sem Trump skipaði í embætti, heitið að gera það sem við getum til að verja stofnanir lýðræðisins en hafa hemil á hvötum hans þar til hann lætur af embætti.“

Gegn hugsjónum repúblikana

„Siðblinda forsetans er rót vandans,“ heldur höfundurinn áfram. Hann bætir við að þótt Trump hafi verið kjörinn sem forsetaefni repúblikana hafi hann sýnt lítinn stuðning við lýðræðis- og frelsishugsjónir flokksins, t.a.m. frjálshyggju í efnahagsmálum, og jafnvel átt það til að gera atlögu að þeim.

Bob Woodward er þekktastur fyrir að hafa skrifað fyrstu fréttirnarum ...
Bob Woodward er þekktastur fyrir að hafa skrifað fyrstu fréttirnarum Watergate-málið sem leiddi til afsagnar Richards Nixons forseta 1974. AFP

„Auk þess að markaðssetja í stórum stíl þá hugmynd að fjölmiðlarnir séu „óvinir þjóðarinnar“ hefur forsetinn almennt sýnt hvöt til að snúast gegn frjálsum viðskiptum og lýðræði.“

Höfundurinn tekur þó fram að stjórnin hafi náð árangri sem fjölmiðlar hafi ekki komið nægilega til skila í „nær linnulaust neikvæðri umfjöllun um forsetann“. Hann nefnir sem dæmi afnám íþyngjandi reglugerða í atvinnulífinu, skattalækkanir repúblikana og aðgerðir til að efla herinn. „En þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir leiðtogastíl forsetans – ekki vegna hans – sem er fljótfærnislegur, deilugjarn, smásálarlegur og árangurslítill.“

Höfundurinn segir að hátt settir embættismenn í Hvíta húsinu, ráðuneytum og ríkisstofnunum viðurkenni þegar þeir tali saman undir fjögur augu að þeim blöskri yfirlýsingar og gerðir forsetans. „Flestir þeirra reyna að hindra að duttlungar hans hafi áhrif á starfsemi þeirra.“

Að sögn höfundarins fer umræðan út og suður á fundum með forsetanum, sem staglist á gífuryrðum, og hvatvísi hans verði til þess að hann taki illa grundaðar ákvarðanir sem séu stundum svo gáleysislegar að draga þurfi þær til baka.

„Það er bókstaflega ómögulegt að vita hvort hann skiptir um skoðun mínútu seinna,“ hefur höfundurinn eftir hátt settum embættismanni eftir fund í Hvíta húsinu þegar forsetinn sá sig um hönd í mikilvægu máli og dró til baka ákvörðun sem hann hafði tekið viku áður.

„Ómærðar hetjur“

Höfundurinn segir að óútreiknanleg hegðun forsetans væri meira áhyggjuefni ef ekki væru „ómærðar hetjur“ í Hvíta húsinu og ráðuneytum stjórnarinnar. Sumum embættismanna forsetans hafi verið lýst sem skúrkum í fjölmiðlunum en þeir hafi lagt mikið á sig til að koma í veg fyrir að „slæmar ákvarðanir“ hafi áhrif á starfsemi stjórnarinnar utan veggja Hvíta hússins.

„Það kann að vera lítil huggun á þessum glundroðatíma en Bandaríkjamenn ættu að fá að vita að það er fullorðið fólk í herberginu,“ heldur höfundurinn áfram. „Við erum að reyna að gera það sem er rétt, jafnvel þegar Trump vill það ekki.“

AFP

Höfundurinn nefnir utanríkismál sem dæmi um hvernig embættismenn stjórnarinnar hafi gengið á svig við forsetann. Trump hafi t.a.m. sýnt að hann hafi dálæti á einræðisherrum á borð við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en hafi litlar mætur á tengslum Bandaríkjanna við lýðræðisríki sem hafa unnið með bandarískum stjórnvöldum í öryggismálum. Höfundurinn segir að þrátt fyrir þetta hafi embættismenn forsetans fetað aðra slóð, gengið hart fram gegn löndum á borð við Rússland og haldið áfram að starfa með bandamönnunum, umgengist þá sem jafningja í stað þess að fordæma þá sem keppinauta. „Hvað Rússland varðar, til dæmis, var forsetinn tregur til að vísa svo mörgum njósnurum Pútíns úr landi til að refsa Rússum fyrir eiturárás á fyrrverandi rússneskan njósnara í Bretlandi. Hann kvartaði vikum saman yfir því að hátt settir starfsmenn ýttu honum út í frekari deilur við Rússa og lét í ljós óánægju með það að Bandaríkin héldu áfram refsiaðgerðum gegn þeim vegna hættulegs framferðis þeirra. En embættismenn hans í öryggismálum vissu betur – grípa þurfti til slíkra aðgerða, draga þurfti stjórnvöld í Moskvu til ábyrgðar.“

Íhuguðu brottvikningu

Höfundurinn segir að í byrjun kjörtímabils forsetans hafi embættismenn stjórnarinnar „hvíslað“ um það hvort ástæða væri til að nýta ákvæði í 25. viðauka stjórnarskrárinnar til að víkja forsetanum úr embætti. „En enginn vildi valda stjórnlagakreppu. Þannig að við gerum það sem við getum til að beina stjórninni í rétta átt þangað til þessu lýkur, með einum eða öðrum hætti.“

Höfundurinn segir að það sé ekki mesta áhyggjuefnið hvað Trump hafi gert forsetaembættinu, heldur hvað þjóðin hafi leyft honum að gera Bandaríkjunum. „John McCain sagði þetta best í kveðjubréfi sínu. Allir Bandaríkjamenn ættu að gefa gaum að orðum hans, losa sig úr flokkstryggðargildrunni, með það háleita markmið að taka höndum saman í krafti sameiginlegra gilda okkar og ástar á föðurlandinu. Við höfum ekki lengur John McCain. En við höfum alltaf fordæmi hans – leiðarstjörnu sem vísar veginn til að endurheimta heiðurinn í opinberu starfi og umræðunni í landinu. Trump kann að óttast slíka heiðvirða menn, en við ættum að bera mikla virðingu fyrir þeim.“

Bloggað um fréttina

Giftingar- og trúlofunarhringar frá ERNU
Dæmi um handsmíðað par úr silfri með alexandrite-steini, sem gefur mikið litafló...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
Fasteignir
Ertu að leita að fasteignasala ? Frítt söluverðmat, vertu í sambandi sími ...