1.200 fangar á flótta

Talið er að um 1.200 fangar séu á flótta úr þremur fangelsum á indónesísku eyjunni Sulawesi eftir náttúruhamfarirnar þar á föstudag. 

Í einu fangelsi í borginni Palu, sem varð illa úti í flóðbylgjunni sem fylgdi eftir jarðskjálfta upp á 7,5 stig, flúðu flestir fangarnir eftir að veggir fangelsisins hrundu í jarðskjálftanum. Fangelsið var byggt fyrir 120 manns en alls var 581 fangi þar þegar jarðskjálftinn reið yfir.

Að sögn embættismanns í dómsmálaráðuneytinu, Sri Puguh Utami, fór vatn að flæða inn í fangelsisgarðinn ekki löngu eftir að jarðskjálftinn reið yfir og eðlilega hafi fangarnir fyllst skelfingu og forðað sér. „Það er engin spurning að þetta snerist um líf eða dauða fyrir fangana,“ segir hún í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Indónesísk yfirvöld upplýsa um tölu látinna í hamförunum snemma að morgni að íslenskum tíma og um sjö í gærmorgun að íslenskum tíma var greint frá því að 832 væru látnir og tala látinna ætti væntanlega eftir að hækka mikið.

Í fangelsi í Donggala, skammt frá upptökum skjálftans, kviknaði í og flúðu allir fangarnir, 343 að tölu. Í öðru fangelsi í Palu brutu fangarnir sér leið út og eru því einnig á flótta, alls um 1.200 manns. 

Talið er að fangarnir hafi kveikt í fangelsinu í Donggala en ekki hafði verið farið að kröfu þeirra um að fá að hafa samband við ástvini sína til að kanna með afdrif þeirra. Utami segir að fangelsismálayfirvöld hafi ætlað að leyfa þeim að kanna með fjölskyldur sínar en einhverjir fangar hafi ekki verið reiðubúnir til þess að bíða og kveikt í. 

Fimm fangar sem voru dæmdir fyrir hryðjuverk voru nýlega fluttir úr fangelsinu en einhverjir þeirra sem þar sátu inni eru með dóma fyrir fíkniefnabrot og spillingu. 

Alls eru rúmlega 100 fangar eftir í fangelsunum tveimur í Palu en fangaverðirnir eiga fullt í fangi með að útvega þeim eitthvað að borða. Utami staðfestir það að fangelsið sé orðið uppiskroppa með mat. Reynt sé að útvega meiri mat en matur er orðinn af skornum skammti á eyjunni og því erfitt að verða sér úti um vistir.

Alþjóðlegar hjálparstofnanir hafa verið fengnar til þess að veita íbúum á eyjunni aðstoð en í gærkvöldi veitti forseti Indónesíu, Joko Widodo, yfirvöldum á eyjunni heimild til þess að þiggja alþjóðlega aðstoð. Þetta kemur fram í færslu embættismanns á Twitter í morgun. Lýst hefur verið yfir 14 daga neyðarástandi á eyjunni og er óttast að miklu fleiri hafi látist en 832. 

Byrjað var að brenna lík látinna enda óttast að kólerufaraldur gæti brotist út. Í morgun var byrjað að útbúa fjöldagrafir fyrir þúsundir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert