Handtekinn í tengslum við morð á blaðakonu

Viktoria Marinova var myrt um helgina.
Viktoria Marinova var myrt um helgina. AFP

Þýska lögreglan hefur handtekið mann í tengslum við morðið á búlgörsku blaðakonunni Viktoriu Marinova að sögn innanríkisráðherra Búlgaríu, Mladen Marinov. Maðurinn var handtekinn seint í gærkvöldi að beiðni búlgarskra yfirvalda.

Ríkissaksóknari Búlgaríu, Sotir Tsatsarov, segir ekki talið að morðið tengist starfi hennar sem blaðamanns. Heldur sé um morð tengdu kynferðislegu ofbeldi.

„Við erum með næg sönnunargögn sem tengja þessa manneskju við vettvang glæpsins,“ segir Tsatarov.

Saksóknari segir að maðurinn heiti Severin Kasimirov og er fæddur árið 1997. Hann er einnig grunaður um að hafa nauðgað og myrt aðra konu. 

Forsætisráðherra Búlgaríu, Boyko Borisov, ræðir við blaðamenn en hann stendur …
Forsætisráðherra Búlgaríu, Boyko Borisov, ræðir við blaðamenn en hann stendur á milli innanríkisráðherra landsins, Marin Marinov, og ríkissaksóknara, Sotir Tsatsarov. AFP

Maður sem var yfirheyrður í Búlgaríu í tengslum við málið í gær hefur verið látinn laus að sögn lögreglu. Um er að ræða Rúmena af úkraínskum uppruna. 

Lík Marinova fannst í almenningsgarði í borginni Ruse í norðurhluta Búlgaríu á laugardag. Henni hafði einnig verið nauðgað. Á mánudag var greint frá því að Marinova hafi verið slegin í höfuðið og kæfð. Sími hennar, bíllyklar, gleraugu og hluti af fötum hennar fundust ekki á vettvangi. Fleiri hundruð tóku þátt í minningarathöfnum um hana í Búlgaríu á mánudagskvöldið. 

Marinova starfar hjá búlgarskri sjónvarpsstöð en Búlgaría er það ríki Evrópusambandsins sem virðir frelsi fjölmiðla minnst samkvæmt upplýsingum frá samtökunum Blaðamenn án landamæra. Þáttur sem Marinova starfaði við nefnist Detector og er spjallþáttur. Nýverið var hún með viðtal við tvo búlgarska rannsóknarblaðamenn sem hafa unnið að rannsókn á spillingarmáli tengdu búlgörskum stjórnmálamönnum og kaupsýslumönnum sem grunaðir eru um að hafa dregið sér fé úr sjóðum ESB.

Viktoria Marinova.
Viktoria Marinova. AFP

Blaðamennirnir, Attila Biro og Dimitar Stoyanov, voru handteknir í september þegar þeir unnu að rannsókn málsins. AP fréttastofan hefur eftir ríkissaksóknara að embættið hafi hafið rannsókn á meintum fjársvikum kaupsýslumannanna og stjórnmálamannanna.

Marinova er þriðji þekkti blaðamaðurinn sem er myrtur í ríkjum ESB undanfarið ár og sá fjórði frá því í ágúst í fyrra.

Sænska blaðakonan Kim Wall var drepin af danska frumkvöðlinum Peter Madsen eftir að hafa komið um borð í kafbát hans vegna viðtals í Kaupmannahöfn í ágúst 2017.

Í október 2017 var maltneska blaðakonan Daphne Caruana Galizia drepin í bílsprengjuárás skammt frá heimili sínu og í febrúar var slóvenski blaðamaðurinn Jan Kuciak og unnusta hans, Martina Kusnirova, skotin til bana.

Bæði Caruana Galizia og Kuciak voru þekkt fyrir rannsóknarblaðamennsku og að hafa komið upp um spillingarmál í heimalöndum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert