Bretar verði fátækari og áhrifaminni

Major segir að Bretar verði bæði fátækari og áhrifaminni í ...
Major segir að Bretar verði bæði fátækari og áhrifaminni í alþjóðasamfélaginu þegar útgangan úr Evrópusambandinu verður að veruleika. AFP

Sir John Major, forsætisráðherra Bretlands á árunum 1990-1997, segir að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu muni leiða til þess að Bretar verði fátækari og áhrifaminni í alþjóðasamfélaginu. Jafnframt segir hann að blekkingum hafi verið beitt af hálfu þeirra sem börðust fyrir útgöngu Breta úr ESB í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016 og að þeim sömu verði aldrei fyrirgefið.

Ummælin lét Major falla í fyrirlestri í Lundúnum í gær, en hluti af ræðu hans er birtur á vef Guardian. „Ég skil vel ástæður þeirra sem kusu með því að ganga úr ESB,“ sagði Major og bætti við að hann vissi af eigin raun að ESB gæti verið ergjandi.

Þrátt fyrir það hefði sú ákvörðun Breta að ganga úr ESB verið tröllaukin mistök „sem munu rýra bæði Bretland og Evrópusambandið.“  Major segir að Brexit muni gera Breta fátækari, draga úr öryggi þeirra til framtíðar og jafnvel, til lengri tíma, leiða til þess að Bretland liðist í sundur. Auk þess sé morgunljóst að Brexit takmarki tækifæri ungra Breta.

Sir John Major (t.h.) ásamt hjónunum Tony og Cherie Blair.
Sir John Major (t.h.) ásamt hjónunum Tony og Cherie Blair. AFP

„Og – þegar þetta verður ljóst – trúi ég því að þeir sem lofuðu því sem aldrei mun skila sér, þurfi að svara fyrir margt. Þeir fengu blekkta þjóð til þess að kjósa það að verða veikari og fátækari. Það mun aldrei gleymast – né fyrirgefast,“ segir Major.

Major segir jafnframt að Brexit þýði að Bandaríkjamenn muni ekki lengur meta Breta sem jafn mikilvæga bandamenn í Evrópu. „Við munum skipta minna máli,“ segir Major og bætir við að hið „sérstaka samband“ Bretlands og Bandaríkjanna verði veigaminna með hverju árinu sem líður.

Hann segir bæði Íhaldsflokkinn og Verkamannaflokkinn vera í vandræðum, þar sem öfgar frá vinstri og hægri innan þessara tveggja kjölfestuflokka í breskum stjórnmálum muni breikka bilið á milli flokkanna og koma í veg fyrir að hófsamar málamiðlanir náist.

„Mýkri, skynsamlegri raddir ættu ekki að drukkna í skarkala frá þeim háværu,“ segir Major, um stjórnmálaumræðuna í Bretlandi þessi misserin.

mbl.is
Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...
Bókaveisla
Bókaveizla Hjá Þorvaldi í Kólaportinu 30% afsláttur af bókum í janúar Opið lauga...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
FJÖLNOTAKERRUR _ STURTUKERRUR
Fjölnotakerrur, auðvelt er að koma bílum og vélum uppá, 4 til 6 metra langar. St...