Komst næstum upp með morð

AFP

Breskur karlmaður á sjötugsaldri komst næstum upp með að myrða eiginkonu sína og láta líta út fyrir að hún hefði tekið eigið líf. Lögreglan hafði samþykkt framburð hans í málinu. Sannleikurinn kom í ljós þegar maðurinn viðurkenndi morðið fyrir konu á öldurhúsi.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að maðurinn, hinn 64 ára gamli Derek Potter, hafi kyrkt eiginkonu sína til 26 ára og síðan sett meint sjálfsvíg hennar á svið í svefnherbergi þeirra 7. apríl á þessu ári. Lögreglan sá ekkert grunsamlegt við málið.

Morðið átti sér stað í borginni Swansea í Bretlandi. Lögreglan féllst á þá skýringu Potters að hann hefði skroppið út í 15 mínútur og síðan komið hem og fundið eiginkonu sína látna. Þann 25. apríl viðurkenndi Potter morðið hins vegar fyrir konu sem hann vann með.

Konan greindi frá því fyrir dómi að þau hefðu fengið sér bjór og Potter sagt henni að hann þyrfti að segja henni nokkuð. Hann hafi síðan greint henni frá því að hann hefði elskað eiginkonu sína heitt en hún hafi farið í taugarnar á honum og því hefði hann kyrkt hana.

„Þú vissir hvað þú værir að gera

„Þetta sagði hann án þess að blikna, með engin tár í augunum, enginn hlátur. Ég hugsaði með mér: Guð minn góður, hann hefur gert þetta.“ Konan hafði í kjölfarið samband við lögregluna sem hóf rannsókn á málinu og líkið rannsakað í kjölfarið.

Við rannsóknina kom í ljós að miklir áverkar voru á líkinu, 30 rifbeinsbrot og yfir 30 marblettir á hálsinum, andlitinu, handleggjunum, bakinu, fótleggjunum og fótunum. Potter neitaði að því að hafa framið morð og sagði konuna hafa misskilið hann.

Það tók kviðdóm aðeins eina klukkustund og 11 mínútur að kveða upp dóm yfir Potter. Var hann dæmdur til 17 ára fangelsisvistar að lágmarki. Dómarinn sgaði ljóst að um verknað að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða. „Þú vissir hvað þú værir að gera.“

Saksóknarinn Paul Hobson sagði ljóst að lögreglan hefði gert mistök við upphaflega rannsókn málsins. Fara þyrfti yfir málið innan hennar til þess að svona nokkuð gerðist ekki aftur. Fram kemur í yfirlýsingu frá lögreglunni að næsta skref sé að slík athugun fari fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert