Yfir 200 enn saknað

Enn er yfir 200 saknað í skógareldunum sem geisa í Kaliforníu en 31 hefur fundist látinn. Staðfest hefur verið að sex hafi látist til viðbótar í Camp-eldinum svonefnda en alls hefur hann kostað 29 manns lífið.

Um 250 þúsund íbúar Kaliforníu hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógareldanna, sem eru þrír talsins, í ríkinu. Óttast er hvað gerist nú þegar farið er að hvessa og hefur Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, óskað eftir því við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að hann lýsi yfir meiri háttar hamförum því með því er hægt að nýta fleiri alríkisneyðarsjóði. Beiðni Brown barst daginn eftir að Trump hótaði því að draga úr fjárframlögum til Kaliforníu þar sem hann telji að eldurinn hafi kviknað vegna slælegrar stjórnunar í skógarmálum ríkisins, samkvæmt frétt BBC.

Yfir 6.700 heimili hafa orðið eldinum að bráð í bænum Paradís en bærinn hefur verið þurrkaður út af yfirborði jarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert