Grípa ekki til vopna gegn Rússum

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Kanslari Þýskalands lagði áherslu á það í dag að ekki stæði til að grípa til hervalds vegna aðgerða Rússa í Azov-hafi undan strönd Krímskaga þar sem þeir hertóku þrjú skip úkraínska sjóhersins, en forseti Úkraínu hefur kallað eftir aðstoð NATO vegna málsins.

Haft er eftir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ástand mála væri alfarið á ábyrgð Vladimírs Pútín, forseta Rússlands. Hins vegar væri aðeins hægt að leysa með skynsamlegu samtali. Pútín hefur hins vegar sakað Petró Porosjenkó, forseta Úkraínu, um að eiga upphafið að málinu til þess að afla sér vinsælda.

Porosjenkó hefur sett herlög í landamærahéruðum Úkraínu að Rússlandi í kjölfar málsins. NATO ber skylda til þess að grípa til vopna ef ráðist er á eitt bandalagsríki. Úkraína er ekki aðili að NATO en á í viðamiklu samstarfi við bandalagið í öryggismálum.

Haft er eftir Porosjenkó í þýskum fjölmiðlum að Þýskaland sé einn nánasti bandamaður Úkraínu og úkraínsk stjórnvöld vonist til þess að ríki innan NATO séu reiðubúin til þess að senda herskip inn á Azov-haf til þess að aðstoða við að tryggja öryggi landsins.

„Við getum ekki liðið þessa fjandsamlegu stefnu Rússlands. Fyrst var það Krímskagi, síðan austurhluti Úkraínu, núna vill hann [Pútín] Azov-haf. Þýskaland verður að spyrja sig að því hvað Pútín gerir næst ef við stöðvum hann ekki?“

Talsmaður NATO svaraði ekki beint í samtali við BBC ósk Porosjenkós en benti á að frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga 2014 hafi bandalagið aukið verulega viðveru sína í Svartahafi, en Azov-haf er innhaf af Svartahafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert