Stunginn til bana í jólahlaðborði

Skíðastökkpallurinn á Holmenkollen í Ósló, ekki langt frá vettvangi hrottalegs ...
Skíðastökkpallurinn á Holmenkollen í Ósló, ekki langt frá vettvangi hrottalegs manndráps í jólahlaðborði norsks fyrirtækis í nótt. Ljósmynd/Wikipedia.org/Guo Junjun

Klukkan var 2:29 í Ósló í nótt, 1:29 á Íslandi, þegar neyðarmiðstöðinni AMK, Akuttmedisinsk kommunikasjonssentral, barst símtal um að maður hefði verið stunginn í jólahlaðborðsveislu, ekki væri þó ljóst með hverju.

Lögregla og sjúkralið héldu þegar með forgangi á vettvang á svæði sem kallast Lille Gratishaugen og er við Holmenkollen þar sem hinn rómaði skíðastökkpallur Óslóar er einnig staðsettur.

Er viðbragðsaðilar komu á vettvang lá maður meðvitundarlaus í blóði sínu á gólfi svokallaðs lavvo, sem er stækkuð eftirlíking af hefðbundnu tjaldi norska samaþjóðflokksins, studd af trévirki og haldið úti sem eins konar veislutjaldi eða -sal en rekstraraðili er Norska skíðasambandið sem hefur tekjur af að leigja mannvirki þetta út til mannfagnaða og veisluhalds.

Bentu á lettneskan ríkisborgara

Lífgunartilraunir báru ekki árangur og var hinn meðvitundarlausi úrskurðaður látinn á staðnum, eftir því sem Anne Alræk Solem, verkefnisstjóri rannsókna alvarlegra ofbeldismála lögreglunnar í Ósló, segir norska ríkisútvarpinu NRK.

Viðstaddir bentu lögreglu á lettneskan ríkisborgara á fertugsaldri, búsettan í Hamar, sem hafði verið við jólahlaðborðið, og sögðu hann hafa misgert við hinn látna, en lögregla verst enn sem komið er allra frétta af því hvort Lettinn starfi hjá fyrirtækinu sem hafði leigt salinn undir jólahlaðborð sitt í gærkvöldi, sem fékk svo hörmulegar lyktir.

Síðustu fréttir norska dagblaðsins VG herma að lögreglu hafi ekki enn tekist að hafa uppi á ættingjum hins látna til að gera grein fyrir örlögum hans og neiti því alfarið að greina fjölmiðlum frá nokkru varðandi aldur hans eða persónu að öðru leyti. Þetta segir Christian Krohn Engeseth, aðgerðastjóri lögreglunnar á vettvangi í nótt, við blaðið.

„Erum í áfalli“

„Við erum í áfalli, auðvitað snertir þetta okkur djúpt,“ segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem stóð fyrir jólahlaðborðinu í samtali við Dagbladet um það sem norskir fjölmiðlar hafa í dag kallað jólaborðsvígið (n. julebord-drapet). „Við þekkjum starfsfólkið okkar vel og þetta er hryllilegt. Við erum núna önnum kafin við að sinna því starfsfólki okkar sem varð beint og óbeint fyrir þessari upplifun,“ segir framkvæmdastjórinn enn fremur.

Hann segir á milli 70 og 80 starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið þátt í jólahlaðborðinu sem hafi farið vel fram þar til undir lokin, þegar verið var að taka til á staðnum. Hafi þá slegið í brýnu milli mannanna með þessum hörmulegu afleiðingum.

NRK fjallaði um málið í kvöldfréttum sínum rétt í þessu og segir þar að komið hafi til orðaskaks milli mannanna sem lauk með átökum í lavvo-tjaldinu. Ekki sé ljóst hvert deiluefnið hafi verið en haft er eftir áðurnefndri Anne Alræk Solem að lögregla yfirheyri nú tugi vitna og slökkvilið hafi verið á svæðinu og annast þar meðal annars brottnám blóðidrifins snævar utan við veislutjaldið.

Fréttir annarra norskra fjölmiðla af málinu:

Frá Aftenposten

Frá TV2

Frá Glåmdalen, staðarblaði Hamar þar sem grunaði er búsettur

mbl.is
til sölu nokkrar fágætar bækur
til sölu nokkrar fágætar bækur Sjálfstætt fólk 1-2, frumútgáfur með kápum ...
Bókaveisla
Bókaveisla Bókaveisla- 50% afsláttur af bókum hjá Þorvaldi í Kolaprtinu. Allt á ...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
Einstakt sumartilboð - 14,44 fm Garðhús - kr. 375.900,-
Naust er bjálkahús úr 34mm bjálka með tvöfaldri nót. Húsið er 3,8m x 3,8m og er...