Ormarnir uppáhalds vetrarfæðan

Brakandi stökkur og steiktur biti cha ruoi er mikil uppáhalds vetrarfæða hjá íbúum í Hanoi, höfuðborg Víetnam.  Cha ruoi eru klattar úr svínakjöti, eggi, dill, sítrónuberki .... og lúkufylli af ormum.

Klattarnir eru bornir fram sjóðheitir á sölubásum í borginni og raunar elda margir þá líka heima, en ormarnir skríða upp úr ökrum bænda þegar hitastigið fer undir frostmark.

„Þetta lítur ekki vel út, en ekki vera hrædd,“ segir Bui Thi Nga sem selur klattana í sölubás sínum þar sem þeir kosta um einn dollar. Fjölskylda hennar hefu boðið upp á þennan sérrétt í um 30 ára skeið. „Innyflin eru girnileg og mjög próteinrík.“

Ormana má einnig sjóða í klístraðri karamellusósu, blanda saman við það kryddjurtum eða chilipipar og búa til kryddsultu. Cha ruoi sem er í uppáhaldi hjá mörgum þykir hins vegar best útbúið þegar ormarnir eru enn lifandi.

AFP segir klattana hafa tilheyrt matarhefðinni í norðurhluta Víetnam kynslóðum saman og er þeim meira að segja eignaður heiðurinn að hamingjusömu hjónabandi. Því fer þó fjarri að ormarnir séu einu skriðdýrin sem Víetnamar láta sér til munns en djúpsteiktar engisprettur og lirfur úr kókoshnetunni þykkja einnig hnossgæti.

Kokkar á jafn fjarlægum stöðum og París í Frakklandi og Sao Paulo í Brasilíu hafa tekið þessari matarhefð opnum örmum og bjóða nú upp á rétti með engisprettum og sporðdrekum sem ódýrum valkosti við prótín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert