Demókratar tóku við stjórninni

Pelosi með fundarhamarinn á lofti í dag.
Pelosi með fundarhamarinn á lofti í dag. AFP

Demókrataflokkurinn tók í dag formlega við stjórninni í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og Nancy Pelosi þingmaður demókrata var kjörin þingforseti, við formlega athöfn. Pelosi segist stolt af að vera þingforseti, ekki síst þar sem í ár eru 100 ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt vestanhafs.

Þá segir hún forréttindi að fá að sitja í fulltrúadeildinni með yfir 100 konum, en í dag tóku 36 nýkjörnir kvenkyns þingmenn sæti í fulltrúadeildinni og eru konurnar alls 102 og hafa aldrei verið fleiri. Hópurinn hefur heldur aldrei verið jafn fjölbreyttur.

Tvær þeirra eru múslimar, þær Rashida Tlaib þingmaður Michigan-ríkis og Ilhan Omar frá Minnesota, og þá eru þær Debra Haaland frá Nýja-Mexíkó og Sharice Davids frá Kansas fyrstu konurnar af frumbyggjaættum til þess að taka sæti í fulltrúadeildinni.

Ilhan Omar þingmaður demókrata fagnar með börnum sínum eftir að …
Ilhan Omar þingmaður demókrata fagnar með börnum sínum eftir að hafa svarið embættiseið í dag, en hún er önnur af tveimur múslimakonum sem tóku sæti í fulltrúadeildinni í dag. AFP

Þá er Alexandria Ocasio-Cortez frá New York yngsta konan sem kjörin hefur verið á Bandaríkjaþing, en hún er á þrítugasta aldursári.

Pelosi sagði í dag að demókratar myndu fljótlega samþykkja fjárlög sem kæmu í veg fyrir að lokun hluta alríkisstofnana vestanhafs dragist enn frekar á langinn, en útilokaði þó að svo mikið sem einn dollari myndi renna til þess að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti vill ólmur gera. Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum TODAY í dag.

Frétt BBC um fyrsta dag þingstarfa

Frá þingsetningunni í Washington í dag.
Frá þingsetningunni í Washington í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert