Fanginn í Alvogen-málinu fannst látinn

Scott Dozier tók eigið líf eftir að aftöku hans var …
Scott Dozier tók eigið líf eftir að aftöku hans var ítrekað frestað. Ljósmynd/Fang­els­is­mála­yf­ir­völd í Nevada

Morðinginn Scott Dozier sem var dæmdur til dauða fyrir tvö morð fannst látinn í fangaklefa sínum í gær. Mál hans hefur vakið athygli á Íslandi þar sem nota átti lyf frá lyfjafyrirtækinu Alvogen til að taka hann af lífi.

Fréttastofa NBC greinir frá.

Dozier er sagður hafa svipt sig lífi með hengingu en hann fannst látinn í fangaklefa sínum í hámarksöryggisfangelsi í Nevada-ríki í Bandaríkjunum á laugardag.

Dozier gaf það út fyrir tveimur árum að hann vildi deyja og var hættur að berjast gegn aftöku sinni en henni var þó frestað tvívegis vegna málaferla Alvogen gegn fangelsisyfirvöldum í Nevada-ríki í Bandaríkjunum. Alvogen barðist gegn því að lyf fyrirtækisins, Midazolam, yrði notað við aftökuna.

Midazolam er róandi lyf og átti að nota það við aftökuna ásamt ópíóíða-lyfinu Fentanyl, sem er kvalastillandi, og Cisatracuri­um Besyla­tem sem hefur lamandi áhrif og dregur þann sem fær lyfið til dauða.

Lyfjakokteillinn hefur aldrei verið notaður við aftöku og höfðu Mann­rétt­inda­sam­tök Banda­ríkj­anna (American Civil Li­berty Uni­on, ACLU) áhyggj­ur af því að þeir fangar sem fengju hann gætu kafnað og dáið kvalarfullum dauða.

Reyndi ítrekað að taka eigið líf

Í síðasta mánuði var greint frá því að Dozier hefði reynt að taka eigið líf með ýmsum aðferðum í nokkra mánuði meðal annars með lífshættulegu lyfi sem hann fékk sent með pósti.

„Ég hef talað skýrt um að vilja láta taka mig af lífi [...] jafn­vel þó svo ekki sé hægt að koma í veg fyr­ir að það sé þján­ing­ar­fullt,“ seg­ir í handskrifuðu bréfi sem Dozier skrifaði til dóm­ar­anna sem frestuðu af­töku hans í nóv­em­ber vegna óvissu um lyfja­blönd­una sem nota átti við af­tök­una. 

Í símaviðtali við Las Vegas Review-Journal í nóvember sagði hann: „Líf í fang­elsi er ekk­ert líf. Það snýst um að lifa af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert