Páfi óttast blóðbað í Venesúela

Frans páfi ávarpar blaðamenn um borð í flugvél sinni í …
Frans páfi ávarpar blaðamenn um borð í flugvél sinni í Panama. AFP

Frans páfi sagði í dag að hann óttaðist að stjórnmálaátök í Venesúela hefðu í för með sér „blóðbað“ í ríkinu. „Hvað hræðist ég? Blóðbað,“ sagði páfinn við blaðamenn um borð í einkaflugvél sinni, áður en hann hélt leiðar sinnar frá Mið-Ameríkuríkinu Panama til Vatíkansins.

Hann sagðist dauðskelkaður vegna ofbeldisins í Venesúela, en þar eru nú mikil valdaátök, sem skipt  hafa alþjóðasamfélaginu upp í fylkingar þeirra sem styðja þingforsetann Juan Guaido annars vegar og forsetann Nicolas Maduro hins vegar.

Guaido lýsti sjálfan sig réttmætan forseta landsins á miðvikudag og hefur hlotið viðurkenningu Bandaríkjanna og fjölda annarra ríkja, á meðan stórveldi á borð við Rússland og Kína viðurkenna enn Maduro.

Páfi kallar eftir „sanngjarnri og friðsamri lausn“ í Venesúela og segist biðja fyrir því að mannréttindi verði virt í landinu.

Hann hefur þó ekki tekið neina afstöðu til átakanna í Venesúela, þrátt fyrir að kaþólska kirkjan þar í landi hafi gagnrýnt sósíalistastjórn Maduro harðlega á síðustu árum, vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem hefur kallað svelti og skort yfir íbúa og orðið til þess að milljónir hafa flúið landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert