Svíþjóðardemókratar vilja ekki úr ESB

Kosið verður til Evrópuþingsins í maí. Svíþjóðardemókratar munu leggja áherslu …
Kosið verður til Evrópuþingsins í maí. Svíþjóðardemókratar munu leggja áherslu á að breyta sambandinu innan frá. Ljósmynd/Sænska þingið

Svíþjóðardemókratar munu ekki lengur berjast fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Svíþjóðar í Evrópusambandinu. Þess í stað mun flokkurinn leggja áherslu á að umbreyta sambandinu innan frá. Þetta segir Peter Lundgren, oddviti flokksins í Evrópuþingkosningunum sem haldnar verða í maí.

Í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT segir Lundgren að Svíþjóðardemókratar séu raunsæisflokkur. „Við leitumst við að halda okkur í raunveruleikanum. Eins og staðan blasir við okkur nú virðist betri kostur að reyna að umbreyta [sambandinu] innan frá,“ segir hann en útilokar þó ekki að flokkurinn kunni á einhverjum tímapunkti að snúa aftur til fyrri stefnu.

Um töluverða stefnubreytingu er að ræða, en ekki eru nema nokkrir mánuðir frá þingkosningum í landinu þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngu úr ESB var á stefnuskrá flokksins, þótt ekki færi mikið fyrir henni í kosningabaráttunni.

Flokkurinn bætist nú í hóp annarra evrópskra þjóðernisflokka á borð við danska Einingarlistann (Enhedslisten), sænska Vinstriflokkinn og austurríska Frelsisflokkinn sem vilja nú á pappírnum umbreyta ESB en ekki yfirgefa það.

Stuðningur við Evrópusambandsaðild hefur farið vaxandi í Svíþjóð frá því Bretar kusu með útgöngu sumarið 2016, en samkvæmt könnun Sifo frá í október telja 77 prósent Svía að aðild landsins að ESB sé til góða, samanborið við 7 prósent sem telja hana af hinu slæma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert