Hertogaynjan hótar fjölmiðli lögsókn

Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, hótar að fara í mál …
Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, hótar að fara í mál við Mail on Sunday fyrir að birta bréf hennar til föður síns. AFP

Meghan Markle, hertogaynja í Sussex, hótar að fara í mál við Mail on Sunday, sunnudagsblað Daily Mail, fyrir ljósrit sem blaðið birti af bréfi Markle til föður síns. Í því segir hún föður sinn meðal annars hafa „mölvað hjarta sitt í milljón mola.“

Erindrekar hertogaynjunnar settu sig samkvæmt Guardian í samband við fjölmiðilinn fyrr í mánuðinum til þess að hafa uppi þessar hótanir. Bréfið er handskrifað frá Meghan til föður síns og hún skrifaði það í kjölfar ítrekaðra viðtala við hann í fjölmiðlum, þar sem hann skáldaði upp sögur, fannst henni.

Mail on Sunday birti bréfið í heild sinni fyrr í mánuðinum að beiðni föður hertogaynjunnar, Thomas Markle. Það kvað svar hans við þeirri ráðstöfun að fimm nánir vinir hertogaynjunnar væru búnir að fara í viðtöl við fjölmiðla þar sem þeir sökuðu hann um ýmislegt misjafnt.

Það er ekki ljóst hvar mörkin liggja í þessu máli samkvæmt bókstafi laga. Annars vegar er málum svo háttað að þegar bréf er skrifað er að því höfundarréttur og hann lýtur vissum lögmálum en hins vegar má deila í þessu tilfelli um hvort skipti máli að blaðið hafi birt bréfið í hlutum en ekki allt á einu bretti. Guardian ræðir við lögfræðing um þetta.

Meghan hertogaynja hefur sem sé ekki átt sjö dagana sæla í samskiptum við föður sinn en deilur þeirra á milli hafa ítrekað ratað í fjölmiðla, og raunar sumar einvörðungu farið fram á vettvangi fjölmiðla, allt frá því að hann mætti ekki í brúðkaup hennar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert