Buhari endurkjörinn forseti Nígeríu

Muhammadu Buhari hefur verið endurkjörinn í embætti forseta Nígeríu.
Muhammadu Buhari hefur verið endurkjörinn í embætti forseta Nígeríu. AFP

Muhammadu Buhari, sitjandi forseti Nígeríu, hefur verið lýstur sigurvegari forsetakosninga þar í landi. Yfir­kjör­stjórn lands­ins greindi frá því í kvöld að Buhari var með fjögurra milljóna atkvæða forskot þegar enn átti eftir að telja atkvæði í nokkrum ríkjum, en sigur hans væri öruggur.

Stuðningsmenn hans söfnuðust saman fyrir utan kosningaskrifstofu hans og fögnuðu áður en úrslitin voru tilkynnt.

Forsetakosningar fóru fram í Nígeríu um síðustu helgi, viku á eftir áætlun. Yfir­kjör­stjórn lands­ins kenndi tækni­leg­um örðug­leik­um um frest­un­ina, en tilkynnt var um frestunina einungis nokkrum klukkustundum áður en kjörstaðir áttu að opna.

Til að sigra í forsetakosningum í Nígeríu þarf meirihluta atkvæða á landsvísu sem og 25% kosningu í tveimur þriðju hluta af 36 ríkjum landsins. Samkvæmt fyrstu tölum hlaut Buhari 15.191.847 atkvæði eða 56% atkvæða á landsvísu en Abukhar, fyrrverandi varaforseti og mótframbjóðandi Buhari, 11.262.978 atkvæði eða 41% atkvæða á landsvísu.

Buhari sigraði í 19 ríkjum, þar af tveimur þéttbýlustu ríkjunum, Lagos og Kano, á meðan Abukhar sigraði í 17 ríkjum.

mbl.is