Eiga í „eitruðu sambandi“

Starfsmenn UNICEF fá þjálfun í að meðhöndla fólk smitað af …
Starfsmenn UNICEF fá þjálfun í að meðhöndla fólk smitað af ebóluveirunni. AFP

Aðgerðir til að vinna bug á nýjasta ebólufaraldrinum í Austur-Kongó hafa ekki skilað tilætluðum árangri að því er mannúðarsamtökin Læknar án landamæra segja. Samtökin segja öryggissveitum ríkisins um að kenna því þær eigi í „eitruðu“ sambandi við marga íbúa landsins.

Nú sjö mánuðum eftir að faraldur ebólu braust aftur út hefur ekki tekist að ná tökum á útbreiðslunni, segir í yfirlýsingu Lækna án landamæra. Þar kom fram að um 40% þeirra sem dáið hafa úr veirusýkingunni deyi heima hjá sér, ekki á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. „Það þýðir að við höfum ekki komist að sjúklingunum og að þeir hafi ekki leitað sér læknishjálpar,“ sagði Joanne Liu, framkvæmdastjóri Lækna án landamæra, við blaðamenn í Genf í dag.

Fyrstu ebólutilfellin uppgötvuðust í héraðinu Norður-Kivu í ágúst. Fljótlega voru tilfelli einnig staðfest í nágrannabyggðunum. Vitað er að 561 hefur látist og 894 hafa sýkst á þessu tímabili. 

Einmitt í þessum hluta landsins er ástandið einstaklega eldfimt. Uppreisnarhópar og öryggissveitir ríkisins lenda ítrekað í átökum. Liu varar við því að treysta á að hermennirnir séu látnir koma hinum sýktu á sjúkrahús. Fólkið í sveitunum vill ekkert hafa með þá að gera, treystir þeim ekki enda sýna þeir oft af sér fjandsamlegt viðmót gagnvart borgurunum.

„Andrúmsloftinu er ekki hægt að lýsa öðruvísi en eitruðu,“ segir Liu. Því sé ekki hægt að bregðast við og huga að sjúkum með viðunandi hætti. Læknar án landamæra þurftu nýlega að loka tveimur heilsugæslustöðvum í Norður-Kivu vegna árása sem gerðar voru á þær. „Litið er á hjálparstarfsmenn sem óvininn,“ segir Liu. Á einum mánuði hafi hjálparstarfsmenn og starfsstöðvar þeirra orðið fyrir meira en þrjátíu árásum.

Læknar án landamæra starfa víða í Austur-Kongó og eru að íhuga það hvort heilsugæslustöðvarnar tvær verði opnaðar að nýju. Samtökin segja að héðan í frá verði reynt að komast hjá því að nota hermenn til að koma sjúkum undir læknishendur. Liu bendir á að ekki sé hægt að beita fólk þvingunum til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Slíkt skili ekki árangri.

Vandi heilbrigðisstarfsfólksins felst einnig í því að það veit ekki hvernig og hvar um þriðjungur ebólusmitaðra sýktist. 

Ebólufaraldurinn nú er sá tíundi sem brýst út í Austur-Kongó. Hann er einn sá alvarlegasti í veraldarsögunni. Aðeins einu sinni hafa fleiri látist í einum faraldri og það var á árunum 2013-2016 í Vestur-Afríku. 11 þúsund manns létust.

mbl.is