Tveir drengir drukknuðu

AFP

Tveir ungir drengir drukknuðu þegar bátur þeirra sökk skammt frá grísku eyjunni Samos snemma í morgun. Auk þeirra hefur strandgæslan fundið lík fullorðins manns en talið er, að að minnsta kosti 12 hafi verið um borð í bátnum.

Um flóttafólk er að ræða sem var að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Það sem af er ári hafa yfir 200 flóttamenn og hælisleitendur drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið. Flestir þeirra á leið til Ítalíu, samkvæmt upplýsingum frá stofn­un Sam­einuðu þjóðanna um fólks­flutn­inga, IOM (In­ternati­onal Org­an­izati­on for Migrati­on).

Yfir 70 þúsund flóttamenn, flestir frá Sýrlandi, eru í Grikklandi en flestir þeirra flúðu land sitt árið 2015. Eyjan Samos er í Eyjahafi, skammt frá landamærum Tyrklands. Þar eru yfirfullar flóttamannabúðir sem hýsa yfir fjögur þúsund flóttamenn en þar er rými fyrir tæplega 700 manns. 

Ítrekað hefur aðstaða fyrir flóttafólk og hælisleitendur á Grikklandi sætt gagnrýni mannúðarsamtaka. Grísk yfirvöld segja vandann að hluta skýrast af því hversu hægt gangi að afgreiða hælisumsóknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert