Fara fram á breytingar frá Boeing

Nýsmíðuð Boeing 737 MAX-flugvél fyrir utan verksmiðju fyrirtækisins í Renton …
Nýsmíðuð Boeing 737 MAX-flugvél fyrir utan verksmiðju fyrirtækisins í Renton í Bandaríkjunum í dag. AFP

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) sögðu í kvöld að þau myndu fyrirskipa flugvélaframleiðandanum Boeing að gera breytingar á hönnun 737 MAX 8-flugvéla sinna, í kjölfar þess að tvær nýlegar vélar af þeirri tegund hafa hrapað undanfarna fimm mánuði. Samkvæmt FAA hefur Boeing þegar ráðist í að hefja þessa vinnu.

Samkvæmt frétt AFP um málið lúta breytingarnar að kerfi vélarinnar sem á að hindra ofris (e. anti-stalling software) og uppfærslum á stjórnkerfi vélarinnar. FAA hefur tjáð alþjóðaflugmálayfirvöldum að þessar breytingar verði hluti af stöðlum þess, eigi síðar en í apríl.

Boeing-vélar af þessari gerð hafa þó ekki verið kyrrsettar í Bandaríkjunum og það stendur ekki til.

Um það eru þó skiptar skoðanir. Dianne Feinstein, öldungardeildarþingmaður Demókrataflokksins í Kaliforníuríki, sagði í opnu bréfi til flugmálayfirvalda í dag að kyrrsetja ætti alla flugvélar af þessari gerð í Bandaríkjunum þar til í ljós hefði komið, hvað nákvæmlega varð til þess að flugvél Ethiopian Airlines hrapaði í gærmorgun.

Kína og Indónesía eru þó enn þá einu ríkin sem hafa gripið til þess ráðs að kyrrsetja flugvélar af þessari tegund.

Forstjóri Boeing sannfærður um öryggi vélanna

Dennis Muilenberg, forstjóri Boeing, skrifaði í tölvubréfi til starfsmanna fyrirtækisins í dag að fyrirtækið væri sannfært um öryggi 737 MAX-vélanna og bæri traust til fólksins sem hannaði og byggði þær, en Reuters vísar til tölvupóstsins í frétt sinni í kvöld.

Forstjórinn sagði jafnframt við starfsmenn að síðan MAX-vélar hefðu verið teknar í notkun hefðu þær farið mörg hundruð þúsund áætlunarflug án óhappa, en að það væri erfitt að takast á við slysið í Eþíópíu þar sem skammt væri síðan flugvél Lion Air hefði hrapað í Indónesíu.

Hlutabréf í Boeing lækkuðu um rúm 22% á mörkuðum vestanhafs í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert