„Enginn grundvöllur“ fyrir kyrrsetningu

Boeing 737 Max 8-flugvél American Airlines kemur inn til lendingar …
Boeing 737 Max 8-flugvél American Airlines kemur inn til lendingar á alþjóðaflugvellinum í Miami í dag. AFP

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) sögðu í kvöld að það væri „enginn grundvöllur“ fyrir því að kyrrsetja Boeing-þotur af gerðinni 737 MAX.

Daniel Elwell hæstráðandi hjá FAA sagði í tilkynningu í kvöld að athuganir flugmálayfirvalda vestanhafs hefðu ekki sýnt fram á nein kerfislæg vandamál í flugvélum af þessari gerð.

Hann sagði einnig að flugmálayfirvöld annarra ríkja hefðu ekki látið bandarískum flugmálayfirvöldum upplýsingar eða gögn í té sem að þeirra mati „verðskulduðu aðgerðir“ á borð við kyrrsetningu eða flugbann.

Síðdegis í dag var tilkynnt að flugvélar af þessari gerð fengju ekki að fljúga inni í evrópskri lofthelgi, um óákveðinn tíma.

Ítarlega var fjallað um þá hröðu rás atburða sem hefur átt sér stað í flugheiminum, frá því vél Ethiopian Airlines hrapaði á sunnudagsmorgun, á mbl.is fyrr í kvöld.

Hlutabréf í Boeing lækkuðu um rúm 6% í Bandaríkjunum í dag, en um 22% í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert