Aukin gæsla við breskar moskur

Lögreglumenn verða sýnilegri við föstudagsbænir í London í dag.
Lögreglumenn verða sýnilegri við föstudagsbænir í London í dag. AFP

Breska lögreglan hefur aukið við öryggisgæslu sína við moskur í landinu í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Nýja-Sjálandi.

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, segir að viðvera lögreglu verði meiri í dag en hefðbundið er við föstudagsbænir í moskunum. „Ég vil veita múslimum í London hugarró,“ sagði Khan sem hefur verið í sambandi við lögregluna vegna málsins. „Lögreglan verður sýnileg í kringum moskurnar í dag, sem og vopnaðir lögreglumenn, þegar Lundúnabúar fara til bæna.“

Neil Basu, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar, tekur í sama streng. „Við förum stöðugt yfir mögulega hættu ásamt samstarfsaðilum okkar, meðal annars í kringum bænahús og ákveðna hópa víðs vegar um landið.“

Skemmdarverk hafa verið unnin á tveimur moskum í Bretlandi síðustu vikur, í Newcastle og Manchester. Hakakrossar voru málaðir á þær báðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert