Margir látnir í árás í Christchurch

AFP

Fjölmargir eru látnir eftir skotárásir í tveimur moskum í nýsjálensku borginni Christchurch. Þrír karlar og ein kona eru í haldi lögreglu í tengslum við árásirnar, að sögn lögreglu. Fólk á vettvangi lýsir því hvernig það hafi reynt að forða sér undan skothríðinni. Fólk er beðið um að halda sig innandyra, skólum hefur verið lokað, matvöruverslunum sem og moskum í borginni. Miðborgin minnir mest á eyðimörk þar sem búið er að loka henni af að mestu.

Lögreglustjórinn í Christchurch, Mike Bush, fór yfir stöðu mála í borginni fyrir skömmu og forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, ávarpaði þjóð sína og segir daginn einn þann dimmasta í sögu landsins. Ekki hefur verið staðfest hversu margir eru látnir en talað er um allt að 30 manns og að jafnvel um 40 séu særðir. 

Lögreglan hefur fundið sprengjur á nokkrum stöðum og staðfesti Bush það við fréttamenn að nokkrar sprengjur hafi verið festar við bifreiðar en búið væri að aftengja þær. „Þetta sýnir okkur hversu alvarlegt þetta er,“ segir hann en ekki er útilokað að fleiri hryðjuverk eigi eftir að fylgja í kjölfarið í öðrum ríkjum.

AFP

Ekki er vitað hversu margir árásarmennirnir eru en samkvæmt frétt Herald er talið að einn þeirra sé Ástrali sem skrifaði stefnuyfirlýsingu (manifesto) um fyrirætlanir sínar. Hann aðhyllist hugmyndafræði öfgamanna og hatur þeirra á innflytjendum. Maðurinn er í haldi lögreglu.

Vildi fækka innflytjendum í Evrópu með árásinni

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur staðfest að árásarmaðurinn sé Ástrali, öfgamaður og ofbeldisfullur hryðjuverkamaður. 

Myndskeið sem tekið var af hryðjuverkamanninum sýnir að hann hafi tekið upp morðin á fólkinu. Lögreglan biður almenning um að dreifa ekki myndskeiðinu á netinu.

Að sögn vitna lá fólk úti um allt í blóði sínu í kringum Al Noor-moskuna en auk hennar var gerð árás í úthverfi borgarinnar, Linwood.

Skotárásin var gerð í Al Noor-moskunni klukkan 13:40 að staðartíma og nokkru síðar var gerð árás á moskuna við Linwood Avenue.

Maðurinn sem gerði árásina á Al Noor-moskuna kynnir sig á Twitter sem Brenton Tarrant og hann sendi beint út á samfélagsmiðlum frá árásinni og beindi myndavélinni að sjálfum sér áður en hann hóf árásina. Stefnuyfirlýsing hans er á 73 blaðsíðum og þar lýsir hann sjálfum sér sem „venjulegum hvítum manni“.

Árásarmaðurinn, sem er 28 ára gamall, segir að hann komi úr verkamannafjölskyldu með lítil fjárráð og hann hafi ákveðið að taka til sinna ráða til að tryggja framtíð „fólksins hans“.

Lögreglan rannsakar nú bakgrunn mannsins en hann er frá Grafton. Hann segir tilganginn með árásinni vera að fækka innflytjendum á evrópskri grund. 

Myndin á Twitter-aðgangi Tarrants er af fórnarlambi árásarinnar í Nice á Bastilludaginn 2016. 

Myndin er tekin af ljósmyndara Reuters, Eric Gaillard, og varð að tákni fyrir hryðjuverkaárásina sem kostaði 84 mannslíf. 

Tarrant lýsir ástæðunni fyrir árásinni í stefnuyfirlýsingu sinni. Hann vilji með henni sýna þessu „innrásarliði að landið okkar“ verði aldrei þeirra.

„Landið okkar er eign og þannig verður það svo lengi sem hvíti maðurinn er á lífi. Þeir munu aldrei hertaka land okkar og þeir munu aldrei koma í stað okkar fólks,“ segir meðal annars í yfirlýsingu hryðjuverkamannsins. 

Tarrant segist hafa undirbúið árásina í tvö ár en hafi valið Christchurch fyrir þremur mánuðum. Í upphafi hafi hann ekki ætlað að gera árás á Nýja-Sjáland. En árás á landið veki athygli á þeim árásum sem verið er að fremja á siðmenningu okkar og sýna að það er enginn öruggur. Innrásarliðið sé komið út um allt og jafnvel á afskekktustu staði heimsins. Enginn sé óhultur fyrir innflytjendum og frjálsri för fólks. Hann segist tala fyrir hönd milljóna Evrópubúa og annarra þjóðernissinna í heiminum. „Við verðum að tryggja tilveru okkar fólks og framtíð okkar hvítu barna.“

Árásin sé hefnd fyrir innrásarliðið og dauða hundraða þúsunda í Evrópu sem útlendir innrásarherir hafa drepið í gegnum tíðina. Hefnd fyrir landtöku íslamskra þrælahaldara og eins sé árásin hefnd fyrir allar þær þúsundir Evrópubúa sem hafa látist í hryðjuverkaárásum í Evrópu undanfarin ár. 

Frétt um stefnuyfirlýsingu hryðjuverkamannsins

Öllu flugi frá Dunedin til Christchurch hefur verið aflýst og samkvæmt Guardian er það vegna þess að ekki er hægt að rannsaka farangur nægjanlega á flugvellinum. Varað er við því að allar flugsamgöngur til borgarinnar muni raskast næstu daga. 

Hryðjuverkin munu væntanlega hafa áhrif á umræðu um byssueign Ný-Sjálendinga en talið er að þeir eigi samanlagt 1,2 milljónir skotvopna sem er mun meira hlutfallslega en Ástralar. En um leið mun færri skotvopn miðað við höfðatölu en Bandaríkjamenn. Í pólitískri umræðu á Nýja-Sjálandi undanfarið ár hefur mjög verið rætt um glufur í löggjöfinni þegar kemur að hálfsjálfvirkum rifflum líkt og notaðir eru í hernaði. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert