Hatar ekki morðingja konu sinnar

Farid Ahmed ræddi við fjölmiðla í dag.
Farid Ahmed ræddi við fjölmiðla í dag. AFP

„Eiginkona mín var myrt en ég hata ekki morðingjann,“ sagði Farid Ahmed en kona hans, Hosne Ahmed, var ein þeirra 50 sem létust í hryðjuverkaárásinni á tvær moskur í Christchurch á Nýja-Sjálandi á föstudag.

Farid Ahmed telur líklegt að hryðjuverkamaðurinn hafi lent í áfalli á lífsleiðinni sem hann hafi ekki getað unnið úr. Hosne Ahmed var skotin til bana þegar hún hljóp í aðra moskuna til að reyna að bjarga eiginmanni sínum, sem notar hjólastól.

„Fólk sem fremur svona ódæði nærist á hræðslu annarra og vill espa hópa upp á móti hvor öðrum. Kannski vonaðist hann til þess að með því að ráðast á múslima myndum við svara í sömu mynt en það mun ekki gerast,“ sagði Ahmed.

„Við munum ekki leyfa þér að óttast eða hata annað fólk út af hræðilegum gjörðum þínum.“

Ahmed segist ekki bera kala til hryðjuverkamannsins, þrátt fyrir að eiginkona hans hafi látið lífið. „Ég hef fyrirgefið honum og ég bið fyrir honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert