Morðið á Khashoggi hluti af leynilegri aðgerð

AFP

Meira en ári fyrir morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi hafði krónprins landsins, Mohammed bin Salman, samþykkt leynilega aðgerð sem miðaði að því að þagga niður í mótmælendum. New York Times greinir frá þessu.

Samkvæmt frétt blaðsins fela aðgerðir stjórnvalda í Sádi-Arabíu í sér eftirlit, mannrán, fangelsun og pyntingar á Sádi-Aröbum. New York Times vísar í bandaríska embættismenn sem hafa lesið leynilegar skýrslur frá leyniþjónustustofnunum um málið.

Hópurinn sem stóð á bak við morðið á Khashoggi í Istanbúl í október hefur tekið þátt í fleiri aðgerðum sem fólust í herferðinni að sögn bandarískra embættismanna sem og þeirra sem eru þolendur ofbeldis af hálfu hópsins. 

Morðið á Khashoggi hefur vakið mikla reiði úti um allan heim. Meðal annars hafa bandarískir þingmenn krafist þess af forseta landsins, Donald Trump, að hann grípi inn og refsi þeim sem bera ábyrgð. Þingmennirnir segjast sannfærðir um að krónprinsinn hafi borið ábyrgð á morðinu en stjórnvöld í Sádi-Arabíu þvertaka fyrir það. 

Umfjöllun New York Times

Ríkissaksóknari í Sádi-Arabíu hefur ákært 11 manns í tengslum við morðið og meðal þeirra eru félagar í þessum fyrrnefnda hópi. Viðbragðsaðgerðahópurinn hefur tekið þátt í fangelsun og misnotkun á valdi í garð kvenna sem hafa barist fyrir jafnrétti í landinu. 

Samkvæmt NYT neituðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu að tjá sig um hvort slíkur hópur væri til þegar blaðið leitaði eftir svörum. Sendiráð Sádi-Arabíu í Washington hefur ekki heldur viljað svara fyrirspurnum AFP-fréttastofunnar um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert