Verður tekinn af lífi í kvöld

John William King brosir þegar hann er leiddur út úr ...
John William King brosir þegar hann er leiddur út úr dómshúsinu í Jasper eftir að hafa verið dæmdur sekur árið 1999. AFP

Öfgamaður sem trúir á yfirburði hvíta kynstofnsins verður tekinn af lífi í kvöld í Texas. Maðurinn, John William King, 44 ára, er einn þriggja sem var dæmdur fyrir morðið á James Byrd í júní 1998. King verður tekinn af lífi með banvænni lyfjainnspýtingu. 

Félagi hans, Lawrence Brewer, var tekinn af lífi árið 2011 fyrir morðið en Shawn Berry, sem veitti lögreglu upplýsingar, var dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Húðflúr John William King.
Húðflúr John William King. AFP

Berry bar vitni um það við réttarhöldin að hann og félagar hans hafi verið að drekka bjór og ekið um þegar þeir hafi rekist á Byrd, tekið hann upp í bílinn og ekið með hann á afvikinn stað. Þar börðu þeir Byrd til óbóta, hlekkjuðu hann síðan aftan í jeppann og drógu hann eft­ir göt­un­um, 3,2 km leið, þar til hann lést. Við réttarhöldin bar meinafræðingur að höfuð Byrd hafi afhöggvist þegar líkami hans kastaðist á steypt rör í vegkantinum. Líkið fannst höfuðlaust fyrir utan kirkju svartra í smábænum Jasper í Texas. 

Morðið vakti mikinn óhug meðal almennings í Bandaríkjunum, ekki síst svartra, sem sögðu það dæmi um hrottaskap rasista í garð svartra í landinu. King, sem var 24 ára gam­all, var fyrsti hvíti maður­inn sem dæmd­ur er til dauða í Texas fyr­ir að verða svört­um manni að bana, en dauðarefs­ing var tek­in upp í rík­inu á ný á miðjum átt­unda ára­tugn­um.

Þessi mynd var tekin af John William King í desember ...
Þessi mynd var tekin af John William King í desember 2017. AFP

Tíu árum eftir dóminn yfir King skrifaði þáverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, undir lög sem báru nafn Byrd sem og Matthew Shepard, ungs manns sem var myrtur sama ár. Lögunum er ætlað að herða löggjöfina varðandi hatursglæpi.

Verjendur King báru við réttarhöldin að ofbeldi í fangelsi hafi neytt hann til þess að leggja lag sitt við hvíta rasista og skreyta sig með húðflúri með áróðri rasista. „Hann var ekki rasisti þegar hann fór inn en hann var það þegar hann kom út,“ sagði verjandi King, H. „Sonny" Cripps.

Morð réttlætir ekki morð

En geðlæknir sem var dómkvaddur af saksóknara sagði að grimmd glæpsins tæki af allan vafa um að dauðarefsing væri rétt og viðeigandi refsins.

King var félagi í rasistahópi sem þekktur var undir heitinu Confederate Knights of America. Lögmenn hans hafa síðan ítrekað reynt að fá dómi yfir honum breytt án árangurs og neitaði hæstiréttur að endurskoða mál Kings í fyrra. Á mánudag neitaði náðunarnefnd Texas einróma að veita honum gálgafrest. Ef King verður tekinn af lífi í kvöld verður hann fjórði fanginn sem er tekinn af lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári. 

Hluti af fjölskyldu Byrds hefur gagnrýnt dauðarefsingar yfir morðingjunum og tók sonur Byrd, Ross, þátt í mótmælum þegar Brewer var tekinn af lífi árið 2011. „Þú getur ekki barist gegn morðum með morðum,“ hefur CNN eftir honum.

mbl.is
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
Sumarhús- Gestahús- Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Frímerkjasafnarar
Frímerkjasafnarar Þýskur alvöru frímerkjasafnari vill komast í kynni við íslensk...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...