„Kraftaverk“ við topp Annapurna

Frá Annapurna fjalli.
Frá Annapurna fjalli. Af Wikipedia

Fjallgöngugarpi frá Malasíu var bjargað í dag eftir að hann var fastur í grennd við topp Annapurna-fjalls í Nepal í tvær nætur. Björguninni er líkt við kraftaverk.

Fjallgöngusérfræðingar segja það ekkert minna en kraftaverk að hinn 48 ára gamli Chin Wui Kin hafi lifað af í kuldanum við topp fjallsins.

Chin komst upp á topp fjallsins, sem er 8.100 metra hátt, á þriðjudag. Hann komst ekki niður í búðir um kílómetra neðar ásamt hópi sem hann var með í göngunni. Þegar leiðsögumaður Chin kom í búðirnar án hans hófst leit að honum.

„Við fundum hann á lífi og hann er með meðvitund,“ sagði einn björgunarmanna við AFP-fréttastofuna. Það var í morgun sem björgunarþyrla kom auga á Chin þar sem hann veifaði út í loftið í brekku um 600 metra frá toppi fjallsins.

Fjórir þaulvanir sjerpar voru sendir af stað í áttina til Chin, gáfu honum vatn og hófust handa við að koma honum niður. Ekki var greint nánar frá ástandi hans en einn sjerpanna líkti björguninni við kraftaverk.

„Við höfðum miklar áhyggjur í gær. Það geta ekki allir lifað af við svona aðstæður í þetta langan tíma. Það er mjög sjaldgæft,“ sagði sjerpinn.

Annapurna er sagt eitt hættulegasta fjall heims en þar farast hlutfallslega fleiri fjallgöngumenn en á Everest. Níu fjallgöngumenn frá Suður-Kóreu fórust á fjallinu í október þegar þeir hröpuðu af kletti í blindbyl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert