Loka fyrir samfélagsmiðla

Búist er við miklum átökum í dag og hafa stjórnvöld …
Búist er við miklum átökum í dag og hafa stjórnvöld lokað fyrir notkun samskiptamiðla. AFP

Í aðdraganda nýrra átaka á götum Venesúela í dag hafa þarlend stjórnvöld ákveðið loka fyrir notkun samfélagsmiðla og streymiforrita. Ríkisfyrirtækið CANTV lokaði á meðal annars Youtube, Google og Bing frá klukkan hálf fimm í dag að íslenskum tíma og er sú lokun enn í gangi, að því er fram kemur í gögnum Netblocks.

Á þeim tíma sem netfrelsi íbúanna var takmarkað voru stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Juan Guaido byrjaðir að safnast saman á götum úti og biðu eftir ávarpi hans.

CANTV sér um nettengingu íbúa Venesúela og hefur áður gripið til sambærilegra aðgerða, síðast í gær eftir að Guaido ávarpaði þjóðina í gegnum þriggja mínútna myndband þar sem hann sagðist vera með stuðning margra innan hersins. Þá var lokað á Twitter, YouTube, Periscope, Instagram, Facebook og WhatsApp.

Ríkisfyrirtækið sér einnig um sjónvarpsútsendingar og var í gær lokað á spænskumælandi útgáfu CNN eftir að sýndar voru myndir af öryggissveitum Maduro-stjórnarinnar að aka brynvörðum ökutækjum á mótmælendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert