Segir kröfu þings um skýrsluna gáleysislega

Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir ekki standa til …
Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir ekki standa til að afhenda óritskoðaða útgáfu skýrslunnar. AFP

Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir Hvíta húsið ekki ætla að verða við kröfu dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um að fá afhenta óritskoðaða útgáfu af skýrslu Robert Muellers, sérstaks saksóknara FBI.

Mueller afhenti dómsmálaráðherranum William Barr skýrsluna í marsmánuði og fór ráðuneytið í kjölfarið í umtalsverða vinnu við að ritskoða skýrsluna.  Á sumum stöðum í skýrslunni hefur verið strikað yfir stóra hluta og hefur Jerry Nadler, full­trúa­deild­arþingmaður demó­krata og formaður dómsmálanefndar, sagt að þær upplýsingar virðist vera þýðingarmiklar.

„Hvorki Hvíta húsið né [William] Barr dómsmálaráðherra munu verða við ólöglegri og  gáleysislegri kröfu [Jerry] Nadler nefndarformanns,“ sagði Sanders í yfirlýsingu.

Yfirlýsinguna sendi hún frá sér um það leyti sem nefndin var að hefja fund sinn, en þar ætlar Nadler að ræða möguleikann á að víta Barr fyrir að neita að afhenda nefndinni óritskoðaða skýrsluna og þau sönnunargögn sem hún byggi á.

„Þessi ákvörðun er til vitnis um hreina stigmögnun óvirðingar í stjórn Trumps,“ sagði Nadler við upphafi nefndarfundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert