Þungunarrof bannað í Alabama

Þrátt fyrir nauðgun eða sifjaspell verður konum óheimilt að fara …
Þrátt fyrir nauðgun eða sifjaspell verður konum óheimilt að fara í þungunarrof í Alabama. AFP

Öldungadeild Alabama samþykkti í gær að herða reglur um heimild til þungunarrofs og eru nýju lögin þau hörðustu í Bandaríkjunum. Þungunarrof er nú bannað á öllum stigum þungunar. Læknar sem framkvæma þungunarrof eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Texti laganna, sem öldungadeildin sendi til Kay Ivey ríkisstjóra til undirskriftar, heimilar ekki þungunarrof þó svo að þungun sé tilkomin vegna nauðgunar eða sifjaspella. Meirihluti þingmanna í öldungadeildinni eru repúblikanar. 

Samkvæmt frumvarpinu er þungunarrof glæpur sem fangelsisrefsing liggur við, allt frá 10 til 99 ára dómur. Þungunarrof er aðeins heimilt ef líf móður er í hættu eða fóstrið mun fæðast andvana. 

Stærstu mannúðarsamtök Bandaríkjanna, ACLU, hafa heitið því að höfða mál til þess að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum. Eða líkt og bent er á, að með því sé verið að refsa þolendum nauðgana og sifjaspella með því að hrifsa enn frekar yfirráðin af konum yfir eigin líkömum og þær neyddar til þess að fæða. 

Vararíkisstjóri Alabama, Will Ainsworth, fagnar frumvarpinu og segir að það sé stórt og mikilvægt skref í að verja rétt ófæddra. 

Leiðtogi demókrata á þingi Alabama, Bobby Singleton, segir að með þessu sé Alabama-ríki að segja dóttur hans að hún skipti engu máli. Að það sé í lagi fyrir karlmenn að nauðga henni og hún verði neydd til þess að fæða barnið ef hún verður þunguð. 

Miklar breytingar eru að eiga sér stað á þungunarrofslögum ríkja Bandaríkjanna en í ár hafa 28 ríki af 50 boðað eða kynnt yfir 300 ný ákvæði til þess að takmarka þungunarrof. 

mbl.is