Skipað að kveikja aftur á vélunum

AFP

Vélar sem halda lífi í Vincent Lambert voru settar í samband á ný í gærkvöldi eftir að áfrýjunardómstóll í París komst að þeirri niðurstöðu að gera ætti allt til þess að halda honum áfram á lífi.

Nokkrum klukkutímum fyrr var hætt að gefa honum næringu og vökva í æð en Lambert, sem er 42 ára gamall, hefur í áratug verið lamaður fyrir neðan háls og heiladauður eftir vélhjólaslys. Niðurstaða áfrýjunardómstóls er í samræmi við niðurstöðu nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. 

Móðir Lamberts, Viviane, fagnaði niðurstöðunni og sagði hana stórsigur í baráttunni fyrir lífi Vincent. Foreldrar hans hafa ásamt tveimur hálfsystkinum hans barist fyrir því að vélarnar sem halda honum á lífi verði tengdar áfram á meðan eiginkona Lamberts og fimm systkini hans eru á öndverðum meiði líkt og læknar hans.

Samkvæmt upplýsingum AFP var talið að Lambert myndi deyja innan fárra daga án þess að fá næringu og vökva í æð á Sebastopol-sjúkrahúsinu í Reims þar sem hann hefur legið frá árinu 2008.

Vincent Lambert.
Vincent Lambert. AFP

Viviane Lambert sagði í gær að læknarnir hafi verið byrjaðir á eyðingu Vincent og niðurstaða áfrýjunardómstóls sé því mikill sigur. Í þetta skiptið sé hún stolt af réttarkerfinu. 

En frændi Vincent, sem studdi ákvörðun lækna um að slökkva á vélunum, segir að það að hefja meðferð að nýju sé ekkert annað en hreinræktaður sadismi í boði kerfisins. Áður en dómarar greindu frá niðurstöðunni í gær hafði Frans páfi lýst þeirri skoðun sinni að halda ætti lífi í Lambert. Verja þurfi líf með öllum ráðum. 

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, neitaði að verða við beiðni foreldra Lamberts um að hafa afskipti af málinu. Ákvörðunin um að hætta meðferð hafi verið tekin í kjölfar stöðugrar umræðu milli lækna og eiginkonu hans sem er fulltrúi Lamberts fyrir lögum. Rachel, eiginkona Lamberts, sagði í gær að það að sjá hann fara sé fyrir henni að sjá hann fá frelsi. Allir geti haft sínar skoðanir á málinu en umfram allt þá geti fjölskyldan nú fengið frið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert