Hrottalegt morð vekur óhug og reiði

Courtney Herron.
Courtney Herron. Lögreglan í Victoria

Hrottalegt morð á ungri heimilislausri konu í Ástralíu hefur ýtt undir umræðu um ofbeldi gagnvart konum í landinu. 

Lík Courtney Herron, 25 ára, fannst í garði í Melbourne á laugardag og að sögn yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar, Andrew Stamper, hafði hún verið beitt hrottalegu ofbeldi. Lögreglan hefur handtekið 27 ára gamlan mann, Henry Hammond, sem einnig er heimilislaus og var hann leiddur fyrir dómara í dag. Þar var hann ákærður fyrir morð. Hammond var úrskurðaður í gæsluvarðhald en réttarhöld yfir honum hefjast í september. 

Mikil reiði ríkir í Melbourne vegna morðsins en nokkrar konur hafa verið myrtar með hrottalegum hætti í borginni undanfarin misseri. Það var gangandi vegfarandi sem fann Herron látna skammt frá þeim stað þar sem grínleikkonunni Eurydice Dixon var nauðgað og hún síðan myrt fyrir tæpu ári. 

Í frétt BBC kemur fram að lögreglan telji að ráðist hafi verið á Herron í almenningsgarðinum í Parkville-hverfinu snemma á laugardagsmorgninum og reynt að fela líkið. Að sögn lögreglu var árásin sérstaklega hrottaleg en ekki var reynt að brjóta gegn henni kynferðislega. 

Herron hefur glímt við geðræn veikindi og fíkn undanfarin ár og var að sögn fjölskyldunnar í litlu sambandi við hana.  

Aðstoðarlögreglustjóri Melbourne, Luke Cornelius, sagði á fundi með fjölmiðlafólki í gær að viðhorf karla til kvenna í borginni verði að breytast. Ofbeldið gagnvart konum þar sé alfarið á ábyrgð karla og hugarfari karla þurfi að breyta. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert