Tók próf hálftíma eftir barnsburð

Nýfæddur sonur konunnar dafnar vel.
Nýfæddur sonur konunnar dafnar vel. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Eþíópísk kona ákvað að taka menntaskólapróf í sjúkrarúminu sínu aðeins hálftíma eftir að hún ól barn.

Almaz Derese, sem er 21 árs frá Metu í vesturhluta Eþíópíu, hafði vonast til að geta tekið prófin í skólanum áður en barnið fæddist en þeim hafði þegar verið frestað vegna föstumánaðar múslima, ramadan.

Derese fékk hríðir í gær skömmu áður en fyrsta prófið hennar átti að hefjast.

Í samtali við BBC sagði hún það ekkert vandamál að læra undir próf er hún var ófrísk og vildi hún ekki bíða þangað til á næsta ári eftir því að útskrifast. Hún tók próf í ensku, amharísku og stærðfræði á sjúkrahúsinu í gær og tekur afganginn af prófunum næstu tvo daga.

„Vegna þess að ég var að drífa mig til að geta tekið prófið var fæðingin alls ekkert erfið,“ sagði hún.

Eiginmaður hennar, Tadese Tulu, sagðist hafa þurft að sannfæra skólann um að leyfa henni að taka prófin á sjúkrahúsinu.

Derese stefnir á háskólanám. Hún sagðist vera ánægð með gengi sitt í prófunum og bætti við að nýfæddur sonur hennar dafni vel.

mbl.is