„Ég skil áhyggjur fólks“

Hulda Þórey Garðarsdóttir er ræðismaður Íslands í Hong Kong.
Hulda Þórey Garðarsdóttir er ræðismaður Íslands í Hong Kong. Ljósmynd/Ásgeir Brynjar Torfason

„Það er ekki viðeigandi að tala sem ræðismaður beint í þessu en ég skil áhyggjur fólks og kröfuna um að fólk eigi ekki á hættu að verða framselt til Kína,“ segir Hulda Þórey Garðarsdóttir, ræðismaður Íslands í Hong Kong, í samtali við mbl.is.

Greint hefur verið frá gríðarlegum fjölda mótmælenda í Hong Kong sem krefjast þess að stjórnvöld hætti alfarið við áform sín um að leyfa framsal afbrotamanna frá Hong Kong til Kína. Þá hefur verið kallað eftir afsögn og afsökunarbeiðni héraðsstjóra Hong Kong, Carrie Lam.

Fjórðungur íbúa Hong Kong mótmælir

Að sögn skipuleggjenda tóku yfir 2 milljónir manna þátt í mótmælunum í gær sem verður að teljast magnað miðað við að íbúafjöldi Hong Kong er tæplega 7,5 milljón manna. Hulda segir að það séu ekki staðfestar tölur en telur að þær geti verið réttar miðað við það sem hún hefur séð.

Mótmælin ótrúlega friðsæl

„Ég verð nú að segja að mér hefur fyrst og fremst fundist aðdáunarvert hvað þessi mótmæli hafa verið friðsæl miðað við allan þennan fjölda sem kom saman á litlu svæði,“ segir Hulda og bætir við:

„Nú í gær byrjuðu mótmælin að snúast líka um stjórnunarstíl og ef maður fylgist með fréttum og talar við fólk þá snúast áhyggjurnar um þetta og að það sé ekki fullkomið lýðræði. Ég skil áhyggjurnar, þetta hefur gerst hratt og fólki finnst ekki vera hlustað á almenning.“

Engin vandamál hafa komið inn á borð hjá henni vegna mótmælanna en vitað er að einhverjir Íslendingar hafa tekið þátt í þeim. Hún segir misjafnt eftir því við hvern er talað hvort talið sé að Carrie Lam, héraðsstjóri Hong Kong, muni verða við kröfum mótmælenda og segja af sér.

„Það skiptist til helminga eftir því hvað maður les og heyrir. En hvað gerist næst í þessu er önnur saga og eitthvað sem ég verð að fylgjast með og bíða og sjá eins og aðrir,“ bætir hún við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert