Hvöttu til dráps á Harry prins

Meghan og Harry geisluðu af gleði og ást þegar þau …
Meghan og Harry geisluðu af gleði og ást þegar þau kynntu Archie litla. AFP

Tveir ungir breskir nýnasistar, sem hvöttu til árása á Harry prins fyrir að hafa kvænst konu af blönduðum kynþætti, voru í dag dæmdir í fangelsi fyrir brot á hryðjuverkalögum. 

Michal Szewczuk, 19 ára frá Leeds og Oskar Dunn-Koczorowski, 18 ára frá Vestur-London,  eru hluti af nýnasistahóp sem nefnist Sonnenkrieg. BBC birti upplýsingar um starfsemi hópsins og fyrirætlanir hans í desember og voru tvímenningarnir handteknir í kjölfarið. Að sögn dómara við Old Bailey héraðsdóminn í dag var áróður þeirra bæði viðbjóðslegur og saknæmur. 

Hengja ætti hvítar konur sem færu á stefnumót með lituðum körlum

Dunn-Koczorowski var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og samfélagsþjónustu og Szewczuk fékk rúmlega fjögurra ára dóm. 

Fram kom við réttarhöldin að piltarnir birtu ítrekað áróður og hvöttu til hryðjuverka á vef samtakanna. Meðal annars var þar sagt að hertoginn af Sussex væri kynþáttasvikari sem ætti að skjóta og síðan var norski fjöldamorðinginn Anders Breivik sagður bera af öðrum mönnum. Lögðu þeir til að hvítar konur sem færu á stefnumót með lituðum körlum yrðu hengdar.

Oskar Dunn-Koczorowski og Michal Szewczuk.
Oskar Dunn-Koczorowski og Michal Szewczuk. Ljósmynd breska lögreglan

Að sögn Rebeccu Poulet dómara er efnið sem þeir rituðu á vefinn bæði ofbeldisfullt og ógnandi þar sem mælt er með nauðgunum og aftökum. 

Vildi taka börn af lífi svo þau yrðu ekki vinstrisinnaðir stjórnmálamenn

Helstu skotmörk tvímenninganna er fólk sem er litað á hörund og gyðingar. Mennirnir héldu á lofti áróðri Sonnenkrieg og bandarísku systursamtakanna Atomwaffen en innblástur þeirra kemur frá bók sem bandarískur nýnasisti, James Mason, skrifaði á sínum tíma, Siege.

Meðal þess sem Szewczuk hvatti lesendur sína til var að nauðga konum og börnum. „Ætlið þið að rísa upp og grípa tækifærið eða ætlið þið að sitja kyrrir og gera ekkert. Heil sé sigri og Heil Hitler!“ segir meðal annars í stefnuskrá Sonnenkrieg.

Í apríl játaði Szewczuk að hafa hvatt til hryðjuverka og vörslu efnis sem nýtist í hryðjuverkum. Dunn-Koczorowski játaði sök í desember, en þá var hann 17 ára að aldri.  

Frétt BBC

Dunn-Koczorowski lagði til í ummælum á netinu að börn væru tekin af lífi svo hægt væri að koma í veg fyrir að þau yrðu vinstrisinnaðir stjórnmálamenn. „Hryðjuverk eru besta pólitíska vopnið því ekkert snertir fólk meira en óttinn við skyndilegan dauða.“

Þegar tvímenningarnir voru handteknir fannst í tölvu Szewczuk - sem þá var nemandi í tölvunarfræði við háskólann í Portsmouth - leiðbeiningar um hvernig ætti að búa til sprengjur.

Dunn-Koczorowski gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin National Action þegar hann var enn í grunnskóla en samtökin hafa nú verið bönnuð. Hann gegndi leiðtogahlutverki hjá samtökunum sem og fleirum áður en hann stofnaði Sonnenkrieg ásamt fleirum. 

Fram kom við réttarhöldin að hann braut skilyrði lausnar gegn tryggingu í síðasta mánuði með því að nýta samfélagsmiðla til að koma öfgahugmyndafræði sinni á framfæri. Að sögn dómarans sýndi hann engin merki um iðrun og það sé verulegt áhyggjuefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert