Búa sig undir samningslaust Brexit

Theresa May er í Brussel, sennilega í síðasta sinn sem …
Theresa May er í Brussel, sennilega í síðasta sinn sem forsætisráðherra Bretlands. Leiðtogafundur ESB hófst í gær og lýkur í dag. AFP

Bretar munu ganga úr Evrópusambandinu samningslausir 31. október nema breska þingið samþykki fyrirliggjandi útgöngusamning Theresu May eða boðað verði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Þetta er niðurstaða leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem fundar nú í Brussel. Guardian greinir frá.

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, sagði á blaðamannafundi í Brussel í gær að „gríðarleg andstaða“ væri meðal leiðtoga aðildarríkjanna 27 gegn frekari seinkun á útgöngunni, sem þegar hefur verið seinkað í tvígang. Vardakar sagði að þótt Írar hefðu „óendanlega þolinmæði“ væri það orðið samdóma álit annarra leiðtoga að óákveðni breskra stjórnvalda yrði ekki liðin lengur.

Theresa May lætur senn af embætti forsætisráðherra Bretlands, og við tekur annaðhvort Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, eða Jeremy Hunt, sá núverandi. 

Johnson hefur lýst því yfir að hann vilji að Bretar gangi út úr sambandinu 31. október „með eða án samkomulags“ en hann hefur haldið því fram að honum muni takast að ná betra samkomulagi við Evrópusambandið um útgönguna, þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar leiðtoga sambandsins um að eina samkomulagið sem standi til boða sé það sem þegar liggur fyrir, og tók tæp tvö ár að semja um.

Jeremy Hunt hefur hins vegar ekki viljað skuldbinda sig til að ganga úr ESB 31. október. Þótt það sé markmiðið sé ekki hægt að útiloka að samningaviðræður verði komnar á gott skrið á þeim tíma og útganga gæti tafist.

Samkomusalur leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel.
Samkomusalur leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert