Nær Erdogan að halda Istanbúl?

Stuðningsmenn AKP-flokks Erdogans dansa og tralla á götum Istanbúl í …
Stuðningsmenn AKP-flokks Erdogans dansa og tralla á götum Istanbúl í dag. Það er kosið á ný um borgarstjórastólinn þar á morgun. AFP

Borgarstjórakosningar fara fram í Istanbúl á morgun, í annað sinn á einungis þremur mánuðum, en afar umdeild ákvörðun var tekin um að láta kjósa aftur í borginni eftir umkvartanir AKP, Réttlætis- og þróunarflokks Recep Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta, um að ekki hefði verið rétt staðið að kosningunum.

Flokkurinn tapaði borgarstjórastólnum naumlega í hendur Ekrem Imamoglu, frambjóðanda stjórnarandstöðuflokksins CPH, Flokks fólksins, en einungis 13.000 atkvæðum munaði á Imamoglu og Binali Yildirim, frambjóðanda AKP.

Er kosið var til sveitarstjórna á landsvísu 31. mars síðastliðinn var AKP vinsælasti flokkurinn heilt yfir sviðið og hefur víðast hvar tögl og haldir, nema í stærstu borgum landsins, til dæmis í Istanbúl og Ankara, þar sem flokkurinn tapaði illa. Erfiðleikar í efnahagslífi landsins á undanförnum árum hafa leitt til þess að íbúar í stórborgunum kjósa fremur aðra flokka en AKP.

Ekrem Imamoglu á kosningafundi í Istanbúl í dag.
Ekrem Imamoglu á kosningafundi í Istanbúl í dag. AFP

Erdogan hefur látið lítið fyrir sér fara

Athygli hefur vakið núna í aðdraganda kosninga að Erdogan hefur ekki haft sig mikið frammi í kosningabaráttunni.

Forsetinn þeyttist út um allt Tyrkland í marsmánuði í aðdraganda fyrri kosninganna og lagði mikla áherslu á að flokkur hans þyrfti að ná góðum árangri.

Erdogan hefur lítið látið á sér bera í aðdraganda kosninganna …
Erdogan hefur lítið látið á sér bera í aðdraganda kosninganna og á fimmtudag lét hann frá sér ummæli þess efnis að sama hver niðurstaðan yrði myndi flokkur hans una henni. AFP

Svo barðist hann fyrir því að fá borgarstjórakjörið í Istanbúl endurtekið, en nú kveður við nýjan tón og síðast á fimmtudag sagði hann við erlenda fjölmiðla í Istanbúl að flokkur hans myndi lúta niðurstöðu morgundagsins, sama hver hún yrði.

AFP-fréttastofan fjallar um þetta í fréttaskýringu og hefur eftir Berk Esan, alþjóðastjórnmálafræðingi við Bilkent-háskóla í Ankara, að Erdogan hafi valið að láta lítið á sér bera til þess að verða ekki táknmynd tapsins, fari svo að AKP nái ekki halda borgarstjórastólnum í Istanbúl.

Esen segir einnig að Erdogan sé gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna AKP, en að vera hans í sviðsljósinu hafi einnig þau áhrif að hvetja andstæðinga hans til dáða, sökum þess hve tvípóla umræðan verður er Erdogan blandar sér í hana.

Áhugavert verður að fylgjast með gangi mála í Istanbúl á morgun, en í fréttaskýringu AFP kemur fram að miklu máli gæti skipt hvernig atkvæði Kúrda í borginni falli. Talið er að um það bil 2-4 milljónir Kúrda verði á kjörskránni á morgun.

mbl.is