Dómur bannar hægristjórn að leyfa bíla

Umferðin í miðbæ Madrídar var takmörkuð með sektum á þá …
Umferðin í miðbæ Madrídar var takmörkuð með sektum á þá bíla sem fóru þar um í leyfisleysi. Hægristjórnin vildi afnema sektirnar en dómstóll setti stólinn fyrir dyrnar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Nýr hægrimeirihluti í borgarstjórn í Madríd höfuðborg Spánar fær ekki að snúa við löggjöf um bíla í miðbænum. Í nóvember í fyrra setti Manuela Carmena þáverandi borgarstjóri lög um að ökumenn venjulegra fólksbíla yrðu sektaðir um 90 evrur ef þeir hættu sér inn á ákveðið svæði í miðbæ Madrídar.

Niturdíoxíð í andrúmsloftinu minnkaði um 48% á ársgrundvelli ári eftir aðgerðina, að sögn Guardian.

Hægrimenn, sem tóku við keflinu eftir sveitarstjórnarkosningar í vor, vildu afnema lögin hið fyrsta en dómari skar úr um að það mætti ekki afnema þessi lög og rökstuddi aðgerðina þannig, að mengun í Madríd mætti ekki fara yfir ákveðin mörk.

Stjórnarliðar, flokksmenn Lýðflokksins (PP) og Borgaraflokksins (Ciudadanos) sem njóta stuðnings öfgahægriflokksins Vox, hyggjast áfrýja dómnum. Þeir vilja ólmir afnema lögin. Það voru umhverfisverndarsinnar sem upprunalega kærðu til dómstóla ákvörðun þeirra um að afnema lögin og féllst dómarinn á þeirra rök.

Eftirlitið fór og fer áfram þannig fram að myndavélar í borgarkjarnanum fylgjast með bílum sem koma og fara og taka mið af því hvort númeraplöturnar séu í eigu íbúa eða ekki. Lögin voru á sínum tíma sett til þess að sporna við vistskæðum útblæstri eldsneytisknúinna farartækja á þessu svæði.

mbl.is