Vitnisburði Mueller frestað um viku

Samkomulagið gerir ráð fyrir að Mueller sitji fyrir svörum hjá …
Samkomulagið gerir ráð fyrir að Mueller sitji fyrir svörum hjá dómsmálanefnd í þrjár klukkustundir í stað tveggja. AFP

Vitnisburði Roberts Mueller, höfundar skýrslu um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, fyrir Bandaríkjaþingi hefur verið frestað um eina viku, en hann átti að fara fram hinn 17. júlí.

Vitnisburðurinn fer því fram 24. júlí, en um þetta náðist samkomulag á milli þingmanna Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins í báðum þeim þingnefndum sem heyra vilja framburð Mueller, en samkomulagið er sagt gefa þeim meiri tíma til að spyrja hann út í rannsókn hans.

Þingmenn beggja flokka töldu tímann, sem þeim var ætlaður til spurninga, of nauman til þess að allir kæmust að og gerir samkomulagið ráð fyrir að Mueller sitji fyrir svörum hjá dómsmálanefnd í þrjár klukkustundir í stað tveggja.

Eftir það mun hann svo sitja sérstakan fund hjá leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert