Trump ræðst harkalega gegn Mueller

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við fjölmiðla við Hvíta húsið í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við fjölmiðla við Hvíta húsið í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti réðst harkalega gegn Robert Mueller, sérstökum saksóknara FBI, í dag og sagði hann vera í algjörri mótsögn við sjálfan sig.

Sagði Trump að Mueller, sem stýrði rannsókninni á afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016, hefði viljað verða forstjóri FBI en að hann hefði „sagt nei“.

Þeir Mueller hefðu einnig átt í „viðskiptadeilum“.

Mueller sendi frá sér yfirlýsingu um skýrslu sína í gær og ítrekaði þar að rannsókn sín  hreinsaði Trump ekki af grun um að hindra framgang réttvísinnar. Hafa nokkrir þingmenn Demókrataflokksins í kjölfarið kallað eftir því að forsetinn verði ákærður.

Trump sagði við fréttamenn í morgun að ákæra væri „lágkúrulegt, viðurstyggilegt og ógeðslegt orð“. Því næst sagði hann Mueller vera í hópi þeirra sem aldrei hefðu viljað fá sig sem forseta og að rannsókn hans væri „risavaxin áreitni í garð forseta“.

„Mueller hefði aldrei átt að vera valinn,“ sagði hann því næst. „Hann vildi FBI-starfið, sem hann fékk ekki og því næst var hann valinn sérstakur saksóknari.“ Þá sagði Trump starfsfólk rannsóknarinnar vera „nokkrar af verstu manneskjum í heimi“.

Átti engan þátt í að Rússar hjálpuðu sér að ná kjöri

Forsetinn vísaði einnig í ónefnda „viðskiptadeilu“ milli þeirra Muellers. Segir BBC ekki hafa verið ljóst hvað hann átti við, en þó sé vitað að Mueller sagði upp aðild sinni að golfvelli í eigu Trumps árið 2011. Í kjölfarið reyndi hann að fá ársgjaldið endurgreitt, en fékk engin svör frá Trump-samsteypunni að því er Washington Post greindi frá í fyrra.

Fyrr í dag tjáði Trump sig á Twitter og virtist þá segja að rússneskir ráðamenn hefðu átt þátt í að hann náði kjöri og er þar með í mótsögn við fyrri fullyrðingar sínar.

„Rússland, Rússland, Rússland! Það var allt sem heyrðist við upphaf þessara nornaveiða [...] og nú er Rússland horfið af því að ég átti engan þátt í því að Rússland hjálpaði mér að ná kjöri,“ sagði Trump.

Síðar í dag hafnaði hann því hins vegar alfarið að rússneskir ráðamenn hefðu aðstoðað sig við að ná kjöri. „Nei, Rússland hjálpaði mér ekki að ná kjöri. Veistu hver fékk mig kosinn? Ég fékk mig kosinn. Rússar hjálpuðu mér ekki neitt,“ sagði Trump.

Á blaðamannafundi sínum í gær, þeim fyrsta sem Mueller hefur haldið eftir að hann afhenti skýrsluna, las hann upp yfirlýsingu  sem er hans eina frá því rannsóknin hófst fyrir tveimur árum.

Sagði Mueller ekki hafa komið til greina að ákæra sitjandi forseta fyrir glæp sam­kvæmt regl­um dóms­málaráðuneyt­is­ins. Mueller sagði þó jafnframt að ef hann hefði verið þess fullviss að forsetinn hefði ekki framið glæp „þá hefði hann sagt það“.

mbl.is
Loka