Fékk öryggisvottun þrátt fyrir veikleika

Þyrla hjálparsveita sést hér fljúga yfir aurflóðinu í leit að …
Þyrla hjálparsveita sést hér fljúga yfir aurflóðinu í leit að fórnarlömbum. AFP

Sex mánuðum eftir að stífla brast í járngrýtisnámu í Minas Gerais héraði í Brasilíu með þeim afleiðingum að hundruð fórust, hafa fundist sönnunargögn sem benda til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir slysið.

BBC greinir frá og segir rannsakendur telja sannanir sýna að þýska fyrirtækið sem veitti stíflunni öryggisvottun hafi vitað að hún gæti gefið sig.

Tæplega 300 manns fórust er aurskriða flæddi yfir nágrenni bæjarins Brumadinho þegar stíflan brast.

Hjálparsveitarmaður leitar hér fórnarlamba flóðsins í einni af byggingum Vale …
Hjálparsveitarmaður leitar hér fórnarlamba flóðsins í einni af byggingum Vale á stíflusvæðinu. AFP

Neitar að sýna samstarfsvilja

Að sögn brasilískra þingmanna og saksóknara neitar þýska vottunarfyrirtækið Tüv Süd að sýna nokkurn samstarfsvilja og er það sagt hafa áhrif á rannsókn slyssins.

BBC segist hins vegar hafa séð tölvupósta sem sýni að úttekt Tüv Süd á stíflunni hafi ekki mætt opinberum stöðlum. Fyrirtækið hefur neitað að tjá sig um málið.

Aðeins tók nokkrar sekúndur fyrir stífluna í Brumadinho að gefa sig og við það flæddi aur mengaður eiturefnum niður eftir dalnum. Engin viðvörun var gefin út og sírenur sem eiga að hljóma við slík tækifæri fóru ekki í gang.

Líkamsleifar enn að finnast

Verkamenn námunnar sem voru að borða hádegisverð í mötuneytinu, sem staðsett var neðan við stífluna, höfðu engan tíma til að komast á brott. BBC ræddi við ættingja eins þeirra Aramaios, en systir hans var að vinna í mötuneytinu þegar aurflóðið fór þar yfir. Líkamsleifar hennar hafa aldrei fundist. „Þetta hefur alveg farið með okkur,“ segir hann.

Hreinsunarstarf er enn í gangi og líkamsleifar þeirra sem fórust eru enn að finnast.

Saksóknarar hafa fjölmargar spurningar fyrir Vale fyrirtækið, eiganda námunnar, en þeir hafa ekki minni áhuga á hlutverki þýska vottunarfyrirtækisins sem kvittaði upp á öryggisvottun nokkrum mánuðum áður en stíflan brast.

Tüv Süd er vel þekkt í heimalandi sínu Þýskalandi og á alþjóðavettvangi og hefur þótt samnefnari fyrir öryggi. Fyrirtækið var stofnað fyrir rúmri öld síðan og bauð þá upp á öryggisprófanir á gufuvélum, í dag má sjá merki þess blasa víða við m.a. í húsalyftum.

Loftmynd af aurflóðinu.
Loftmynd af aurflóðinu. AFP

Úrgangurin hélt stíflunni saman

Árið 2013 keypti Tüv Süd  brasilískt fyrirtækið, Bureau de Projetos, sem sérhæfði sig í verkfræðiráðgjöf með það að markmiði að komast inn á brasilíska námamarkaðinn. Fjöldi samninga við Vale, sem er eitt stærsta námafyrirtækið heims, fylgdu í kjölfarið.

Sá hluti stíflunnar sem brast hafði áratugum saman verið notaður til að safna í úrgangi úr námunni og síðan hafði verið tyrft yfir. Ólíkt hefðbundnum stíflum var hins vegar enginn ytri veggur, heldur var úrgangurinn látinn halda stíflunni saman. BBC segir vel þekkt að slíkar stíflur geti auðveldlega orðið vökvakenndar og þá fari efni sem áður hafi verið í föstu formi að haga sér líkt og vökvi, sem geri þær viðkvæmar fyrir hruni.

Skjöl og tölvupóstar sem rannsakendur lögðu hald á sýna að starfsmönnum Tüv Süd hafði árið á undan verið kunnugt um að slíka vökvagerð hafi verið að finna í stíflunni.

Leituðu lausn á vökvagerðinni

Samningar Tüv Süd við Vale eru metnir á um fjórar milljónir evra. Undirrituðu fyrirtækin einn samning til viðbótar sín á milli í desember 2017 og snérist hann um leiðir til að meta og finna lausnir á vökvagerðinni. BBC segir vitað til þess að ein slík lausn hafi brugðist í júní í fyrra.

Mánuðina á eftir sýna tölvupóstsamskipti að stíflan stóðst ekki þá öryggisstaðla sem nauðsynlegir væru svo stíflan fengi öryggisvottun.

Rannsakendur segir „lausnina“ á þessum vanda hafa verið að breyta öryggisvottun námunnar. Leyfið hafi þannig verið skilyrt því að engar sprengingar yrðu gerðar á svæðinu, en ólíklegt verði að telja að slíku skilyrði hafi verið mætt í námahéraði. Með þessu móti hafi Tüv Süd hins vegar getað gefið út öryggisvottunina þrátt fyrir augljósa veikleika stíflunnar.

mbl.is