Laus úr haldi eftir 15 daga í Kína

Aðgerðasinnar mótmæltu handtöku hans.
Aðgerðasinnar mótmæltu handtöku hans. AFP

Tæplega þrítugur starfsmaður ræðismannaskrifstofu Bretlands í Hong Kong, sem var handtekinn við landamæri Hong Kong og Kína, var látinn laus nýverið. Simon Cheng var handtekinn 8. ágúst síðastliðinn á leið á fund vegna vinnu sinnar í borginni Shenzhen í Kína. BBC greinir frá

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Kína var hann handtekinn fyrir að brjóta gegn lögum um almennt öryggi. Bresk yfirvöld fagna því að hann hafi verið látinn laus eftir 15 daga í haldi.

Cheng hugðist koma aftur heim til sín um kvöldið með lest eftir fundinn en kom aldrei. Hann sendi kærustu sinni skilaboð um leið og hann fór yfir landamærin og bað hana um að biðja fyrir sér.

Kröftug mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong nú á þriðja mánuð. Til átaka kom í dag milli mótmælenda og lögreglunnar.   

Fjölskylda Cheng er himinlifandi að hafa fengið hann aftur heim og greinir frá því á samfélagsmiðlinum Facebook. Hún jafnframt óskar eftir að hann fái næði til að jafna sig áður en veitt verða viðtöl við fjölmiðla.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert