Eins enn saknað eftir eld í báti í Kaliforníu

Kerti kveikt við höfnina í Santa Barbara í minningu þeirra …
Kerti kveikt við höfnina í Santa Barbara í minningu þeirra sem létust um borð í köfunarbátinum Conception. AFP

Búið er að ná upp líkum 33 þeirra sem létust í eldsvoða um borð í köfunarbáti úti fyrir strönd Kaliforníu á mánudagsmorgun. AFP-fréttaveitan hefur eftir yfirvöldum að eins sé enn saknað.

Björgunaraðgerðum var hætt á þriðjudagsmorgun og þess í stað tekið til við að leita látinna í flaki köfunarbátsins Conception sem þá lá á hvolfi á 20 metra dýpi á hafsbotni.

Eldsupptök eru enn óljós, en fljótlega tókst að ná upp líkum 11 kvenna og níu karla. Í dag hafði köfurum svo tekist að ná upp líkum 13 til viðbótar að sögn lögregluembættis Santa Barbara-sýslu.

Tilkynning barst um eldinn snemma mánudagsmorguns og náðu hjálparsveitir fimm manns úr sjónum fljótlega eftir að þær komu á vettvang, en báturinn var þá í ljósum logum. 34 til viðbótar sem um borð voru eru hins vegar taldir hafa farist.

Líkamsleifar hinna látnu hafa verið fluttar í líkhúsið í Santa Barbara þar sem DNA-sýni úr ættingjum verða notuð til að bera kennsl á fólkið.

AFP segir yfirvöld enn ekki hafa birt nöfn hinna látnu, en BBC hafði fyrr í dag eftir ættingjum að fimm manna fjölskylda, Michael Quitasol og dætur hans Evan, Nicole og Angela og eiginkona hans Fernisa Sison, hefðu verið um borð í bátnum.

Talið er að fjöldi farþega hafi verið sof­andi und­ir þilj­um þegar eld­ur­inn kviknaði, en að fimm­menn­ing­arn­ir sem voru í áhöfn bátsins hafi hins veg­ar verið sof­andi í aðalsal skips­ins uppi á dekki. Var einn þeirra með minni­hátt­ar meiðsl.

Bát­ur­inn var köf­un­ar­bát­ur og var nýtt­ur í skipu­lagðar ferðir um Chann­eleyja-þjóðgarðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert