Hjólreiðamaður skallaði vegfaranda

AFP

Hljólreiðamaður, sem fór yfir á rauðu ljósi í miðborg London, höfuðborgar Bretlands, og hjólaði við það næstum á gangandi vegfaranda sem var á leið yfir götuna réðst á vegfarandann í kjölfarið eftir að sá gagnrýndi framferðið.

Lögreglan leitar að hjólreiðamanninum og hefur óskað eftir aðstoð við það frá almenningi, en atvikið átti sér stað 22. ágúst við Farringdon-stræti í miðborg London. Hjólreiðamaðurinn stöðvaði hjólið eftir að hafa verið gagnrýndur af vegfarandanum fyrir að hafa næstum hjólað á hann, gekk til vegfarandans og skallaði hann í andlitið.

Vegfarandinn, 57 ára gamall karlmaður sem starfar í viðskiptahverfi London, varð fyrir meiðslum við auga og á handlegg. Sauma þurfti meðal annars sár fyrir ofan annað auga hans. Fréttavefur dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá.

mbl.is